Mikill meirihluti landsmanna er hlynntur bólusetningu barna undir 12 ára aldri við Covid-19. Fram kemur í niðurstöðum könnunar Ráðhússins ráðgjafar og Tölvísi fyrir Fréttablaðið að 70,5 prósent séu hlynnt bólusetningum barna. 14,4 prósent eru því andvíg. Þá hafa 11,2 prósent ekki skoðun á bólusetningu barna undir 12 ára aldri við Covid-19.

bóluset grafík.jpg

Þegar niðurstöðunum er skipt niður á kyn kemur í ljós að konur eru eilítið hlynntari þeim en karlar, 71,2 prósent á móti 69,6 prósentum karla. Karlar eru þó líklegri til að vera andvígir, 17,9 prósent á móti 11,8 prósentum kvenna.

Mesti munurinn kemur í ljós þegar niðurstöðunum er raðað eftir aldri. Einstaklingar á aldrinum 18 til 34 ára eru síst hlynntir bólusetningum barna, 61,2 prósent þeirra eru hlynnt þeim samanborið við 70,5 prósent fólks á aldrinum 35 til 54 ára og 72,6 prósent fólks 55 ára og eldri.

Mesta andstaðan er þó í aldurshópnum 35 til 54 ára, þar eru 19,5 prósent fólks andvíg bólusetningum barna samanborið við 10,2 prósent fólks á aldrinum 18 til 34 ára og 55 ára og eldri.

Í takt við fyrri rannsóknir

Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum og yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, segir í samtali við Fréttablaðið að þessar niðurstöður séu í takt við rannsóknir sem hann kom að í haust.

„Samkvæmt þeim rannsóknum sem við gerðum í haust, það voru tvær stórar rannsóknir. Önnur var gerð í samvinnu við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands þar sem fólk sem átti börn yngri en 16 ára var spurt hvort það vildi láta bólusetja börn, það var yfirgnæfandi meirihluti sem var mjög jákvæður. Við gerðum líka aðra rannsókn, þar spurðum við rúmlega þrjú þúsund foreldra barna yngri en fjögurra ára. Þar kemur líka í ljós að yfirgnæfandi meirihluti foreldra er hlynnt því að bólusetja börn,“ segir hann.

Foreldrar treysti almennt heilbrigðiskerfinu

„Ef maður lítur á þá sem taka afstöðu er niðurstaðan býsna afgerandi, sérstaklega í ljósi þess hve undarleg og ónákvæm umræðan hefur verið á ýmsum samfélagsmiðlum,“ segir Ásgeir.

„Mín niðurstaða er að foreldrar almennt treysti íslenskum yfirvöldum og íslensku heilbrigðiskerfi í þeirri vinnu sem þau eru að gera og treysti okkur að taka rétta ákvörðun og bólusetja börn gegn Covid.“

Könnunin var gerð með tölvupósti í desember 2021 og í janúar, 639 einstaklingar svöruðu.