Þetta er sársaukafullt fyrir hænuna, þetta er beinbrot,“ segir Brigitte Brugger, dýralæknir hjá Matvælastofnun (MAST). Þar á bæ er talið að bringubeinsskaði í varphænum sé vandamál hérlendis líkt og komið hafi í ljós víða erlendis að undanförnu.

„Það er verið að rannsaka hvaða áhrif þetta hefur á dýrin,“ segir Brigitte. Erlendar rannsóknir sýni að 50 til 90 prósent varphæna séu með brotin eða óeðlileg bringubein því þær séu látnar verpa mikið og líka vegna þess hve stór eggin séu.

Brigitte er í evrópskum rannsóknarhópi þar sem málið kom upp.

„Við ákváðum því að athuga í reglubundnu eftirliti hvernig staðan væri hér á landi. Erlenda rannsóknin sýndi að þetta er mjög algengt og því miður er mjög líklegt að það sama gildi hér á landi, þótt niðurstöður úr rannsókn liggi ekki fyrir,“ segir Brigitte. Hér sé sama tegund af varphænum, aðstæður hér sambærilegar og þær verpi jafn mikið.

Brigitte Brugger, dýralæknir hjá Matvælastofnun (MAST)
Mynd/Aðsend

Hæna sem gengur laus eða er villt verpir um 20 eggjum á ári.

„Varphænur í matvælaframleiðslu verpa hins vegar 300 eggjum á ári, þannig að þetta er gríðarlegt álag á dýrið,“ segir Brigitte.

Að hennar sögn orsakast bringubeinsskaðinn meðal annars af því að hænurnar þjást af beinþynningu, því svo mikið af kalki dýrsins fer í myndun á skurninni utan um eggin og beinin verða því brothættari. Dönsk rannsókn sýni að stærð eggjanna sem hænurnar verpa hafi vaxið mjög til þess að sem mestar afurðir fáist. Bringubeinin þoli ekki þessi stóru egg og brotni.

Brigitte segir mikið af rannsóknum í gangi vegna þess og skoðað sé hvernig draga megi úr skaðanum.

Þá segir hún til skoðunar hvernig breyta megi innréttingum svo varphænur eigi auðveldara með að hreyfa sig án þess að fljúga á. Einnig fylgist MAST með öðrum leiðbeiningum og rannsóknum.