Samkvæmt nýrri rannsókn sænskra yfirvalda er Svíþjóð það Evrópuland þar sem flestar banvænar skotárásir eiga sér stað. Það var áður það land þar sem fæstar slíkar skotárásir áttu sér stað en mikil aukning hefur verið á slíkum glæpum í Svíþjóð á undanförnum árum.
Upp úr 2000 var Svíþjóð neðst á lista þegar kom að banvænum skotárásum í Evrópu. Síðan 2013 hefur slíkum árásum fjölgað stöðugt og Svíþjóð trjónað á toppi listans síðan 2018. Þegar kemur að öðrum ofbeldisglæpum er Svíþjóð hins vegar með þeim löndum Evrópu þar sem fæst slíkir glæpir eru framdir.

Dregið hefur úr fjölda banvænna skotárása það sem af er árinu miðað við sama tímabil undangengin ár. Rannsóknin tók þó ekki til þessa árs.
„Sú fjölgun sem orðið hefur í Svíþjóð er ólík þróun annars staðar í Evrópu. Svíþjóð hefur farið úr neðsta sæti í það efsta samkvæmt evrópskri tölfræði,“ segir Klara Hradilova-Selin, ein þeirra sem stóð fyrir rannsókninni í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT.
Átta af hverjum tíu skotárásum í Svíþjóð tengjast glæpagengjum, einkum vímuefnasölu. Þrátt fyrir að slíkt fyrirfinnist í hinum 22 löndum sem höfð voru til samanburðar er ekki ljóst hvers vegna aukningin hefur orðið jafn mikil og raun ber vitni í Svíþjóð.
„Því miður staðfestir þetta grun okkar um að aukningin í Svíþjóð sé einstök,“ segir Håkan Jarborg hjá sænsku lögreglunni.