Fyrir um mánuði nam Ísrael úr gildi allar sóttvarnareglur, þar á meðal grímuskyldu og fjöldatakmarkanir. Covid-19 tilfellum fór aftur að fjölga í landinu á síðustu vikum vegna Delta-afbrigðis kóróna­veirunnar, fyrst með óbólusettum skólabörnum sem síðan smituðu fullorðna.

Samkvæmt frétt The Washington Post er meðalfjöldi þeirra sem lagðir hafa verið inn á sjúkrahús í hverri viku nú um 120 manns. Meðalfjöldi daglegra smita í síðustu viku var 775, sem er mesti fjöldi sem mælst hefur í landinu frá því í mars.

Ísraelska fréttastöðin Keshet 12 greindi frá því á sunnudaginn að flestir sem lagðir hefðu verið inn á sjúkrahús undanfarnar vikur væru fullbólusettir.

Aftur á móti væri aðeins einn 61 Ísraela sem veikst hafa alvarlega bæði fullbólusettur og yngri en 60 ára. Sá var í aldurshópnum 50-59 ára. Samkvæmt gögnum ísraelska heilbrigðisráðuneytisins sem unnið var upp úr voru 24 þeirra sem voru alvarlega veikir óbólusettir en 37 fullbólusettir.

Var þó tekið fram að þar sem mikill meirihluti Ísraela í þessum aldurshópum er bólusettur gefur hlutfall bólusettra í hópnum ekki endilega rétta mynd af þeim hópum sem líklegastir eru til að veikjast alvarlega.

Þrátt fyrir aukningu smits í landinu er enn langt í að faraldurinn nái fyrri hæðum í Ísrael. Í janúar, á hápunkti faraldursins, voru rúmlega 1.000 alvarleg smit virk í landinu. Tíðni smits og dauðsfalla hríðféll í landinu eftir að bólusetningaherferð ríkisstjórnarinnar komst á skrið og er enn aðeins brot af því sem var þegar ástandið var verst.

Samkvæmt frétt Haaretz fylgjast ísraelsk stjórnvöld nú grannt með Bretlandi, þar sem flestum höftum var aflétt á mánudaginn þrátt fyrir að Delta-afbrigði veirunnar hafi náð verulegri útbreiðslu þar.

„Ef áhættan sem Bretar taka borgar sig getur Ísrael hagað sér á svipaðan hátt,“ sagði Ran Balicer, leiðtogi sérfræðingaráðs sem veitir ísraelska heilbrigðisráðuneytinu ráðgjöf. „Ef ekki mun landið þó hafa verkfærin sem þarf til að það spjari sig.“