Umtalsverð útgjaldahækkun og breyting í áherslum hefur orðið í fjármálum ríkisins frá hruni samkvæmt tölum Stjórnarráðsins.

Stærsta breytingin er hækkuð útgjöld til velferðarmála, heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytanna, upp á 154 milljarða á föstu verðlagi árin 2007 til 2020. Gerir það rúmlega 46 prósenta hækkun til málaflokkanna. Alls hafa útgjöld ráðuneyta og stofnana aukist um nærri 30 prósent og hefur hækkunin orðið á undanförnum fimm árum.

Tugprósenta hækkun má sjá hjá flestum ráðuneytum. 25 prósent hjá forsætisráðuneytinu, 26 hjá menntamálaráðuneytinu og 37,5 hjá dómsmála- og samgönguráðuneytunum. Heildarútgjöld þessara ráðuneyta eru þó lítil miðað við ráðuneyti velferðarmála.

Tvö ráðuneyti skera sig úr

Tvö ráðuneyti skera sig úr með langsamlega mestu aukninguna. Annars vegar er það fjármálaráðuneytið, þar sem útgjöld hafa hækkað um tæp 66 prósent á tímabilinu. Skýrist það þó að stórum hluta af gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga og niðurfærslu á eignarhlutum og hlutafé á einu ári, 2016.

Hins vegar er það umhverfis- og auðlindaráðuneytið þar sem framlög nærri tvöfaldast, hækkun upp á 98,4 prósent. Á tímabilinu hafa þó mörg verkefni verið flutt yfir til ráðuneytisins, aðallega frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytunum, þar sem útgjöld lækka samanlagt um 8 prósent.

Framlög til utanríkisráðuneytisins hafa dregist saman um 2 prósent þrátt fyrir að framlög til varnarmála hafi aukist um 25 prósent og til þróunarsamvinnu um 53. Á tímabilinu hefur sendiráðum verið í heildina fækkað um fjögur.

Tæplega 37 prósenta hækkun hefur verið til æðstu stjórnar ríkisins. Vaxtagjöld hafa hækkað um tæp 13 prósent.

Segir hækkun útgjalda mikið áhyggjuefni

„Mér finnst þetta verulegt áhyggjuefni,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, um útgjaldahækkun hins opinbera frá árinu 2007 til 2020. „Eftir að faraldurinn hófst hefur lítið verið rætt um þetta. Það er við því að búast að hækkunin sé mest á þeim sviðum sem útgjöldin eru mest, en þá þurfum við að líta til þess hvernig fjármagnið er nýtt, það er ekki nýtt nógu vel að mínu mati.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Fréttablaðið/Eyþór

Áður en faraldurinn hófst auglýsti Miðflokkurinn eftir ábendingum frá almenningi um hvernig mætti spara í útgjöldum hins opinbera. Sigmundur segir að búið hafi verið að safna saman hundruðum athugasemda.

Hann segir það áhyggjuefni þegar stofnað sé til útgjalda án þess að verðmætasköpun standi undir því. „Ég vona að við lok kjörtímabilsins náist umræða um þessi mál. Þetta snýst ekki lengur um að fara vel með fé skattgreiðenda heldur hefur þetta neyðarástand í efnahagsmálum sýnt okkur að ríkið hefur ekki efni á að spreða peningum,“ segir Sigmundur.