Á árinu 2020 leituðu alls 827 einstaklingar til Bjarkarhlíðar - miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis. Af þeim voru 83 prósent konur og 17 prósent karlmenn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bjarkarhlíð þar sem tekin er saman helsta tölfræði ársins 2020.

Flestir leituðu til Bjarkarhlíðar vegna heimilisofbeldis (61%) en einnig kom fólk vegna andlegs ofbeldis (18%) og kynferðislegs ofbeldis (14%). Tekið er fram í tilkynningu að flokkarnir geti skarast og að fólk hafi getað upplifað margar tegundir ofbeldis.

Þá kemur fram í tilkynningu að ef tegund ofbeldis er flokkuð eftir tengslum við geranda má einnig sjá að flest málin sem komu á borð Bjarkarhlíðar voru heimilisofbeldismál eða 85 prósent. Ef sú tala er brotin niður sést að 22 prósent gerenda var núverandi maki, 46 prósent gerenda var fyrrverandi maki. Aðeins í  tveimur prósent tilfella var barn gerandi og í 16 prósent tilvika var gerandi ættingi viðkomandi.

Fólk sem leitaði til þeirra var beðið að svara hvernig þau skilgreina þjóðerni sitt og sögðust 94 prósent þeirra hafa íslenskt þjóðerni, þrjú prósent erlent þjóðerni innan Evrópu og þrjú prósent erlent þjóðerni utan Evrópu.

Stærstur hluti þeirra sem leituðu til Bjarkarhlíðar var á aldrinum 18 til 29 ára, eða 28 prósent. Sama hlutfall var í næsta aldurshópi, 30 til 39 ára.

Börn á heimilinu

Í 52 prósent tilfella voru börn á heimili þeirra sem leituðu aðstoðar. Alls sögðu 32 prósent allra svarenda, sama hvort börn voru á heimili eða ekki, að barnavernd hafi haft afskipti af heimilinu.

Þegar spurt er um síðasta atvik kemur í ljós að vopn var notað í 7 prósent tilfella og munir eyðilagðir í 18 prósent tilfella.

Ofbeldið átti sér oftast stað á heimili þolanda, eða í 79 prósent tilfella, eða á heimili geranda í um níu prósent tilfella.

Gerendur oftast karlmenn

Gerendur voru í 86 prósent karlar en 14 prósent konur.  Aldur gerenda var í flestum tilvikum á bilinu 40-49 ára (31%) en næst fjölmennasti aldurshópurinn var á bilinu 30-39 (29%). 84 prósent gerenda eru með íslenskt þjóðerni, 9 prósent erlent – innan Evrópu og 7 prósent erlent – utan Evrópu.

42 prósent gift

Af þeim sem leituðu aðstoðar voru 42 prósent gift, í sambúð eða sambandi og 42 prósent ekki í sambandi. Alls voru ellefu prósent að skilja eða slíta sambúð þegar þeir komu til Bjarkarhlíðar.

58 prósent voru búsett í Reykjavík, en frá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu fyrir utan Reykjavík komu 26 prósent. 16 prósent voru búsettir í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins.

35 prósent hefur lokið háskólanámi, 32 prósent framhaldsskólanámi og 22 prósent grunnskólanámi. Af þeim sem leituðu til þeirra voru 17 prósent atvinnulaus, 15 prósent öryrkjar og 47 prósent voru í fullu eða hlutastarfi.

18 prósent höfðu aldrei fengið þjónustu áður

Af þeim sem komu í Bjarkarhlíð í fyrra höfðu 17 prósent áður fengið þjónustu hjá lögreglunni vegna ofbeldisins, 15 prósent hjá heilbrigðiskerfinu (heilsugæslu og/eða spítala s.s. geðdeild, bráðamóttöku eða öðrum deildum) 9 prósent höfðu fengið þjónustu hjá Þjónustumiðstöð, 7 prósent hjá Kvennaathvarfinu, 3 prósent hjá Stígamótum og 6 prósent hjá barnavernd. 18 prósent höfðu aldrei fengið þjónustu áður vegna ofbeldisins.

Flestir höfðu samband símleiðis og flestir höfðu heyrt um úrræðið í gegnum vin eða kunningja eða fjölskyldumeðlim, eða 24 prósent, og þar á eftir kom opinber umfjöllun og lögregla.

Alls höfðu 17 prósent af öllum þjónustuþegum ársins 2020 kært ofbeldi til lögreglu þegar þeir komu til Bjarkarhlíðar.

Flæðið innan Bjarkarhlíðar

Alls voru 1137 tilvísanir í önnur úrræði innan Bjarkarhlíðar eftir fyrsta viðtal, sem er hærra en heildarfjöldi einstaklinga, það er vegna þess að sumir þjónustuþegar fengu tilvísun í fleiri en eitt úrræði.

Flestar tilvísanirnar í næsta viðtal voru til sérfræðinga Kvennaathvarfsins (30%) en fólki var einnig vísað til lögreglu, Stígamóta, Drekaslóðar, Kvennaráðgjafar og MRSÍ. Þá var hluta vísað til félagsráðgjafa.

Stofnað 2017

Bjarkarhlíð við Bústaðaveg, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, hóf starfsemi sína 2. mars 2017 og hefur því verið starfrækt í tæp fjögur ár. Bjarkarhlíð veitir fullorðnum þolendum ofbeldis þjónustu burtséð frá kyni. Veitt er samhæfð aðstoð við afleiðingum ofbeldis á einum stað. Eftirfarandi  aðilar koma að samstarfsverkefninu, þeir aðilar eru Reykjavíkurborg, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Drekaslóð, Stígamót, Kvennaathvarfið, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Kvennaráðgjöfin, Félagsmálaráðuneytið og Dómsmálaráðuneytið.

Bjarkarhlíð veitir þolendum ofbeldis viðtöl þeim að kostnaðarlausu og á forsendum þolenda. Í Bjarkarhlíð starfa sérfræðingar innan málaflokksins og er þeirra helsta markmið að veita þolendum ráðgjöf og upplýsingar. Kvennaráðgjöfin og Mannréttindaskrifstofa Íslands veita fría lögfræðiráðgjöf fyrir þá sem þurfa á því að halda.