íbúar í Reykjanesbæ, Akureyringar og þeir sem búa í póstnúmeri 108 í Reykjavík eru áberandi í hópi þeirra sem hafa fengið hlutdeildarlán til fasteignakaupa á árinu.

Alls hafa 294 fengið greidd út hlutdeildarlán síðan stjórnarfrumvarp Ásmundar Einars Daðasonar ráðherra varð að lögum, fyrir rúmu ári. Heildarfjárhæð lánanna er 2.438 milljónir króna.

Í svörum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram að af þessum lánum hafa 49 lán farið til íbúa í Reykjanesbæ, 44 hafa farið til Akureyrar og 35 lán hafa verið veitt til íbúa í póstnúmeri 108.

Þar fóru tvær byggingar í sölu, við Síðumúla og Grensásveg eftir miklar endurbætur, sem skýrir fjöldann þar. Af öðrum svæðum þar sem lánin hafa notið vinsælda má nefna Grafarvog.

Hlutdeildarlánin eru ætluð eignalitlum og tekjulágum. Kaupandi leggur fram fimm prósent sjálfur af kaupverði í útborgun og tekur húsnæðislán fyrir 75 prósentum kaupverðs. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) veitir svo hlutdeildarlánin, fyrir allt að 20 prósentum kaupverðs.

Áskilið er að festa verður kaup á nýju húsnæði eða mikið endurbættu, ef húsnæðið er utan höfuðborgarsvæðisins.

Karlotta Halldórsdóttir, hagfræðingur hjá HMS, segir að eftirspurn eftir hlutdeildarlánum hafi verið í samræmi við væntingar. Hins vegar hafi orðið umtalsverð eftirspurnaraukning almennt á fasteignamarkaði, sem leiði af sér að færri eignir séu til sölu. „Það hefur dregið niður fjölda þeirra sem ná að nýta sér hlutdeildarlán þessi misserin,“ segir Karlotta.

Fjöldi lána skipt niður á póstnúmer
mynd/fréttablaðið

„Það hefur verið slegist um minni, hagkvæmar íbúðir, sem hefur haft töluverð áhrif á þennan kaupendahóp.“

Þá segir Karlotta að vaxtahækkanir hafi vissulega áhrif og hækki afborganir lána, sem hafi áhrif á greiðslugetu. Þetta geti leitt til þess að umsækjendur þurfi að fjárfesta í ódýrari fasteign en ella. Vaxtahækkanirnar eiga þó bara við um óverðtryggð lán og því gæti líka skapast aukinn hvati fyrir fólk að velja fremur verðtryggð lán með lægri greiðslubyrði.

Spurð hvort lánin eigi þátt í þenslu á markaði, segir Karlotta að frekar mætti segja að það gæti skapað þenslu ef hægt væri að kaupa allar eignir með hlutdeildarlánum. „Með því að takmarka úrræðið við nýjar eignir og fyrstu kaupendur teljum við að úrræðið hafi ekki teljandi áhrif á markaðinn.“

Engir vextir eða afborganir eru af hlutdeildarláni. Lántaki endurgreiðir lánið þegar hann selur eignina, eða við lok lánstíma. Hlutdeildarlánið er veitt til tíu ára en heimilt er að framlengja lánstímann um fimm ár í senn, mest til 25 ára alls. Hlutdeildarlánið fylgir verðbreytingu eignarinnar og hækkar því og lækkar í samræmi við hana.