Alls eru 151 látin í hrekkja­vöku­slysinu í Seúl í Suður-Kóreu. Mögu­lega mun sú tala hækka en 24 af þeim 104 sem eru á spítala eru talin í lífs­hættu. Af þeim látnu eru 19 þeirra er­lendis ríkis­borgarar en greint hefur verið frá því að á meðal þeirra voru Norð­menn og Kín­verjar.

Flest þeirra látnu eru ungt fólk á þrí­tugs­aldri en þau festust og voru kramin í stóru hrekkja­vöku­partý í þröngu stræti í nætur­lífs­hverfi Seúl í gær.

Um var að ræða stærsta utan­dyra teitið sem hefur verið haldið frá heims­far­aldri. Talið er að allt að hundrað þúsund hafi komið þar saman í Ita­ewon-hverfi í gær til að halda upp á há­tíðina og hafa vitni sagt að það hafi verið svo þröngt og erfitt að komast um að sjúkra­liðar og slökkvi­liðs­bílar gátu varla komist á vett­vang. Ita­ewon er vin­sælt hverfi sem er þekkt fyrir góða klúbba, veitinga­staði og skemmti­staði.

Á vef AP er greint frá því að þúsundir hafi í dag leitað ást­vina sinna sem þau hafa ekki heyrt í hjá borgar­yfir­völdum

Þar segir einnig að fyrir­tæki í grennd við slysstaðinn ætli sér að hafa lokað fram yfir mánu­dag til að tak­marka þann fjölda sem þangað leitar til að skemmta sér

Strætið þar sem slysið átti sér stað.
Fréttablaðið/EPA

Þjóðarsorg

For­seti Suður-Kóreu lýsti yfir þjóðar­sorg í á­varpi í morgun og skipaði starfs­mönnum í ríkis­byggingum að flagga í hálfa stöng. Í á­varpinu, sem var í beinni út­sendingu í sjón­varpi, sagði hann að fjöl­skyldur þeirra látnu myndu fá stuðning til að halda út­för og að slasaðir yrðu að­stoðaðir með meiðsli sín.

Hann kallaði eftir því að rann­sókn færi fram og að öryggi á svo stórum við­burðum yrði tryggt svo hægt verði að halda þá.

„Þetta er hræði­legt. Þessi harm­leikur og hörmung þurfti ekki að gerast í hjarta Seúl á hrekkja­vöku,“ sagði Yoon Suk-Yeol for­setinn og að hann væri sorg­mæddur vegna þess að for­seti á að bera á­byrgð á lífi og öryggi fólks. Eftir ræðuna heim­sótti hann slysstað.

Fjöldi þjóð­höfðingja hafa sent suður-kóresku þjóðinni samúðarkveðjur. Þær má sjá hér að neðan.