Flensborgarskólinn hóf í upphafi ársins þátttöku í verkefni Grænfánans á vegum Landverndar og síðastliðinn þriðjudag, þann 1. desember, var fáninn dreginn að húni við skólann. Markmið Grænfánans er að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla.

Umhverfisnefnd Flensborgar, sem var stofnuð í október í fyrra, hefur á unnið hörðum síðastliðna mánuði að náttúruvernd og miðlun umhverfisvitundar. Nemendur við skólann starfa í nefndinni eftir leiðbeiningum frá Landvernd undir leiðsögn kennara.

Í umhverfisnefnd eru Erna Salóme, Ásthildur Emelía, Ingi Snær, Lilja Sól, Emma Lind, Jóna Guðrún, Hulda og Sindri Már.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Erna Salóme Þorsteinsdóttir, fulltrúi nemenda í umhverfisnefnd, segir að til þess að hljóta grænfánann þurfi að fylgja sjö skrefum.

  • Stofna umhverfisfund
  • Meta stöðu umhverfismála í skólanum
  • Gera áætlun um aðgerðir og markmið
  • Hafa stöðugt eftirlit og endurmat
  • Námsefnagerð og tenging við aðalnámskrá
  • Upplýsa og fá aðra með
  • Gera umhverfissáttmála fyrir skólann

Þegar skrefin sjö hafa verið stigin getur skóli sótt um að fá Grænfánann afhentan. Það er gert með því að fylla út umsóknareyðublað og skila inn greinargerð þar sem útlistað er hvernig skrefin sjö voru stigin.

Nemendur hafa síðustu mánuði unnið að því að vekja athygli á friðlýstum svæðum í Hafnarfirði. Hamarinn er friðlýst náttúruvætti við skólann og á honum er fræðsluskilti en nemendur vilja auk þess setja upp vegvísi við skólann, Á önninni ræddu fulltrúar nefndarinnar við formann umhverfisnefndar Hafnarfjarðar, Andrés Inga Jónsson alþingismann og þrjá sérfræðinga frá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Erna Salóme Þorsteinsdóttir.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Erfitt að vinna verkefnin í faraldrinum

Erna segir margt hafa komið henni á óvart. „Af því við völdum náttúruvernd sem þemað okkar þetta ár þá lærðum við mikið um friðlýst svæði hér í kring. Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um að Hamarinn, við skólann, væri friðlýstur. Það kom mér mikið að óvart,“ segir Erna í samtali við Fréttablaðið. Upphaflega stóð til að halda viðburði til að vekja athygli á náttúruvernd en vegna kórónaveirufaraldursins hafa nemendur þurft að finna aðrar leiðir til að miðla þekkingu sinni.

„Það voru nokkrar flækjur vegna faraldursins. Við völdum okkur sem sagt þrjú markmið og eitt af markmiðum okkar var að halda viðburð. En því miður, vegna faraldursins, varð ekkert úr því í staðinn sendum við myndir og viðtöl á samfélagsmiðla. Síðan var líka alltaf pínu erfiðara að vinna öll verkefnin því við gátum ekki hist en við redduðum okkur.“

Ingi Snær Karlsson.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Ingi Snær Karlsson, sem situr einnig í umhverfisnefnd, segir að verkefnin hafi nýst nemendum utan skólans.

„Mér finnst ég vera meira meðvitaður um hvað það skiptir miklu máli að hugsa vel um náttúruna því við fáum bara eina jörð. Náttúran skiptir okkur líka svo miklu máli bæði líkamlega og andlega,“ segir Ingi Snær.

Grænfáninn dreginn að húni.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Katrín Magnúsdóttir, fulltrúi frá Landsvernd, færði Flensborg Grænfánann við hátíðlega athöfn síðasta þriðjudag. Sagði hún óvenjulegt að það tæki einungis ár að öðlast þessa viðurkenningu frá því að umsókn er lögð inn, eins og í tilviki Flensborgar. Hún hrósaði nemendum fyrir að gera náttúruvernd að þema í nefndarvinnu.

Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning sem má finna í 68 löndum og hafa 59 þúsund skólar víða um heim tekið þátt í verkefninu.

Í tilefni dagsins fluttu Jói Pé og Króli tónlistaratriði eftir að fáninn var dreginn að húni og viðstaddir drógu niður grímurnar augnablik í hvassviðrinu til að gæða sér á kakó og smákökum.

Fulltrúi frá Landvernd færir nemendum Grænfánann.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson