Fimm­tíu manns yfir­gáfu Azovs­tal stál­verk­smiðjuna fyrr í kvöld. Í hópnum eru konur, börn og eldri borgarar. Azovs­tal er síðasta vígið í Maríu­pol. BBC greinir frá þessu.

Að­stoðar­for­sætis­ráð­herra Úkraínu, Iryna Vereshchuk, sagði brott­flutninginn hafa gengið hægt og sakaði hún Rússa um að tefja til­raunir til brot­flutnings með því að brjóta stað­bundið vopna­hlé sem ætti að leyfa al­mennum borgurum að yfir­gefa verk­smiðjuna.

Á fimmtu­dag gaf rúss­neski herinn út að þeir myndu virða tveggja daga vopna­hlé sem sett var á fimmtu­daginn. Vopna­hléið ætti að gera al­mennum borgurum kleift að flýja verk­smiðjuna.

„Rýmingar­að­gerðir munu halda á­fram á morgun,“ sagði Vereshchuk. Þetta hefur varnar­mála­ráðu­neyti Rúss­lands einnig stað­fest.

Rúss­neskir fjöl­miðlar greindu frá því að fjöru­tíu og átta al­mennir borgarar hefðu yfir­gefið verk­smiðjuna í kvöld, en sú tala virðist vera ör­lítið hærri.

Rússar náðu yfir­ráðum á hafnar­borginni Maríu­pol fyrir nokkrum vikum síðan en flutningur al­mennra borgara úr Azovs­tal verk­smiðjunni, hófst síðustu um helgi.

Volodomír Selenskíj, for­seti Úkraínu, sagði í gær að rúss­neskir her­menn hefðu ekki hætt á­rásum að verk­smiðjunni. Það hafi gert brott­flutning al­mennra borgara erfiða.

Vla­dimír Pútín, for­seti Rúss­lands, segir rúss­neska herinn leyfa fólki að yfir­gefa verk­smiðjuna og greint hefur verið frá því að allar flótta­leiðir séu opnar og öruggar.