Tæplega 44 þúsund manns hafa skrifað undir undir­skriftalista til að biðla til stjórn­valda að veita U­hunoma Osa­yomor­e, 21 árs manni frá Nígeríu, al­þjóð­lega vernd eða dvalar­leyfi af mann­úðar­sjónar­miðum á Ís­landi. Það eru fleiri en skrifuðu undir undirskriftarlista Samtaka kvenna um nýja stjórnarskrá á síðasta ári. 43.423 skrifuðu nafn sitt á þann lista.

Undir­skrifta­söfnunin hófst fyrir viku síðan og því ljóst að viðbrögðin hafa verið mikil. Flestar undirskriftarsafnanir sem náð hafa viðlíka fjölda hafa staðið mun lengur og jafnvel mánuðum saman.

Kæru­­nefnd Út­­lendinga­­mála hefur áður synjað U­hunoma um dvalar­­leyfi. Hann flúði heimili sitt sex­­tán ára gamall vegna al­var­­legs of­beldis og of­­sókna af hálfu föður síns. Hann glímir nú við al­var­­leg and­­leg veikindi.

Endur­upp­töku­beiðni var send til Út­lendinga­stofnunar í gær en frestun réttar­á­hrifa var synjað sem þýðir að lög­regla getur hve­nær sem er náð i U­huoma sem er 21 árs og sent hann úr landi. Lög­reglan hefur haft sam­band við hann og er því aug­ljós­lega að vinna í brott­vísun, segir Magnús Davíð Norð­dahl, lög­maður U­hunoma. Búist er við því að það muni taka kæru­nefnd út­lendinga­mála minna en tvær vikur að af­greiða beiðni um endur­upp­töku máls hans.

Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður og Uhunoma.
Fréttablaðið/samsett

„Eftir rúmt ár á Ís­landi hefur U­hunoma eignast nýtt líf og ást­ríka fjöl­skyldu og vini, sem er eitt­hvað sem hann hefði ekki getað í­myndað sér fyrir ör­fáum árum síðan. Hann á heimili með ís­lenskri fjögurra barna fjöl­skyldu og á vini sem geta ekki hugsað sér að missa hann úr lífi sínu og í þær hræði­legu að­stæður sem bíða hans á Ítalíu eða Nígeríu,“ segja skipu­leggj­endur undir­skriftalistans.

„Við for­dæmum að brott­vísa eigi U­hunoma frá Ís­landi og senda hann þar með aftur á flótta. Við skorum á ís­lensk yfir­völd að veita honum al­þjóð­lega vernd eða dvalar­leyfi af mann­úðar­sjónar­miðum á Ís­landi án tafar.“

Áður hefur Ívar Pétur Kjartansson, vinur Uhunoma, og einn af forsprökkum söfnunarinnar, sagt að fjölskylda og vinir hans hafi séð sér einan kost að vekja athygli á máli hans, sökum fálætis yfirvalda í hans garð. „Við erum hópur fólks sem erum vinir hans og viljum ekki missa hann úr lífi okkar.“