Það er orðið erfitt fyrir sólarþyrsta Íslendinga að finna sér flugmiða yfir jólahátíðina, hafi þeir ekki þegar tryggt sér ferð.

Ferðaskrifstofur sem Fréttablaðið ræddi við eiga fæstar lausar ferðir fyrir jólin. Þær eru sammála um að uppsöfnuð ferðaþörf eigi mikinn þátt í aukinni eftirspurn eftir sólarferðum.

„Ferðaþorsti landans er í hámarki og allir vilja komast út í sól sem fyrst,“ segir Steinþóra Sigurðardóttir, sölustjóri VITA.

Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, áætlar að um 1.500 Íslendingar verði í sólarlöndum um jólin á vegum Heimsferða.

Þá leggur stærstur hluti þess hóps leið sína til Tenerife, hinir til Alicante og Kanarí.Sama er upp á teningnum hjá Úrvali-Útsýn og mikið að gera.

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals-Útsýnar, bendir á að aukin eftirspurn hjá þeim geti líka tengst öryggi sem fólk leiti nú í á ferðalögum vegna heimsfaraldursins.

Um ganginn í bókunum segja þau að ferðahugur landsmanna hafi farið minnkandi eftir því sem fjórða bylgjan sótti á í sumar, en eftirspurnin rokið aftur upp núna í september og október.

Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri flugfélagsins Play, segir að ferðalangar séu búnir að bóka sér lengri ferðir en forsvarsmenn Play hafi átt von á. Hún segir að ein skýringin að baki því gæti hugsanlega verið sú að „fleiri eigi fasteignir á Spáni nú heldur en áður“.

Það rímar raunar við það sem forsvarsmenn þeirra ferðaskrifstofa sem Fréttablaðið ræddi við segja. Mikil aðsókn er í flug til Alicante, jafnt sem Tenerife, en það virðist vera sem svo að Íslendingar sæki í auknum mæli í langtímadvöl á Alicante.

Aðspurð segja þau mikla breidd í þeim þjóðfélagshópum sem hyggjast verja jólunum í útlöndum. Þá hafi færst í aukana að stórfjölskyldurnar skelli sér saman í sólina, þá um 15 til 20 manns, eða jafnvel fleiri.

„Það er gömul og úrelt saga að það séu bara amma og afi sem fara til Kanarí,“ segir Steinþóra hjá VITA og bætir við: „Fleiri og fleiri Íslendingar hafa uppgötvað að Kanarí er svo miklu meira en maður heldur. Í Skandinavíu til dæmis eru það miklu fleiri sem kjósa að fara á Kanarí en Tenerife.“

Undir þetta taka forsvarsmenn Úrvals-Útsýnar og Heimsferða.Tómas hjá Heimsferðum segir að algengara sé að fólk í kringum 75 ára og upp úr fari frekar út á haustin og vorin en sleppi jólunum. Nema þá þegar þau eru með stórfjölskyldunni.