Þyrla Land­helgis­gæslunnar var kölluð út þrisvar sinnum í dag. Út­köll þessa helgina hafa verið ó­venju mörg – fleiri út­köll en komið hafa sam­tals til gæslunnar síðustu þrjár vikurnar. Ás­geir Er­lends­son, upp­lýsinga­full­trúi Land­helgis­gæslunnar, segir mikið lán að ekkert hafi komið fyrir þyrluna um helgina en hún er sú eina sem er flug­hæf þessa dagana á meðan verk­fall flug­virkja stendur yfir.

Öll út­köllin í dag sneru að veikindum, þó ekkert vegna Covid-19. Það fyrsta var á Vestur­landi þar sem komu upp bráð veikindi og þyrlan flaug til móts við sjúkra­bíl og sótti mann við Búðar­dal. Næst barst út­kall um veikindi vestur af Sel­fossi sem þyrlan fór í en þegar hún var að koma úr því um fjögur leytið kom strax annað út­kall um veikindi á Horn­ströndum.

Þá varð að fylla tank þyrlunnar af bensíni en þegar því var lokið hafði verið á­kveðið að hægt væri að koma manninum öðru­vísi til læknis og að þyrlunnar væri ekki þörf. Þá þurfti þyrlan að sinna einu út­kalli í gær og út­köll helgarinnar því fjögur talsins.

„Þetta eru ó­venju mörg út­köll. Ef við setjum þetta í smá sam­hengi þá eru þetta fleiri út­köll þessa helgi en voru í þrjár vikur á undan. Og síðustu tvær vikur fyrir helgina kom að­eins eitt út­kall, sem þurfti svo á endanum ekki að fara í“ segir Ás­geir.

Heppni að þyrlan hafi ekki bilað


Flug­virkjar Land­helgis­gæslunnar eru í verk­falli og því er að­eins ein þyrla hennar til­tæk þessa dagana. Hún verður þó að fara í reglu­bundna skoðun næsta mið­viku­dag og því stefnir í að Land­helgis­gæslan verði þyrlu­laus ef ekki næst að semja fyrir þann tíma.

„Við erum í mjög þröngri stöðu með bara eina þyrlu,“ segir Ás­geir. „Við höfum bent á að sú staða geti vel komið upp að þyrlan byli í flugi eða eftir flug. Það er mikil heppni að það hafi ekki gerst núna um helgina.“

Ás­geir Er­lends­son, upp­lýsinga­full­trúi Land­helgis­gæslunnar.