Samtökin Sea Shepherd sem barist hafa af hörku gegn hvalveiðum við Ísland sem og annars staðar hafa nú nokkurn viðbúnað hér á landi vegna hvalveiða Hvals hf.

Liðsmenn samtakanna hafa fylgst með starfseminni við stöð Hvals í Hvalfirði undanfarna viku og segjast munu gera það áfram.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins bættust í gær fleiri liðsmenn Sea Shepherd í hópinn. Komu þeir til Seyðisfjarðar með Norrænu á tveimur bílum.

Á Facebook-síðu samtakanna er því heitið að fylgst verði með starfsemi Hvals og þeirri tilgangslausu slátrun sem fyrirtækið er sagt stunda.