Kínversk stjórnvöld hafa staðfest að fimmtíu hafi veikst af nýrri tegund af lungnabólgu sem komið hefur upp í borginni Wuhan, en breskir sérfræðingar telja þær tölur ekki réttar og segja að fjöldi sýktra sé nær því að vera sautján hundruð. Þetta kemur fram í frétt á vef Breska ríkisútvarpsins.

Þó að flestir þeirra sem veikst hafa séu í miðhluta Kína hafa tveir verið greindir í Taílandi og einn í Japan. Breska ríkisútvarpið hefur eftir Neil Ferguson, prófessor í smitsjúkdómalækningum við Imperial College í London að það valdi honum áhyggjum.

„Ég hef mun meiri áhyggjur í dag en ég hafði fyrir viku,“ segir Ferguson. Hann segir að ef veiran hafi borist til tveggja einstaklinga utan Wuhan borgar séu mun fleiri sýktir en gefið hafi verið upp. Það sé þó ómögulegt að vita nákvæmlega hversu margir séu hafi veikst. Hann segir þó enga ástæðu enn sem komið er til að hafa miklar áhyggjur.

Stjórnvöld í Kína hafa sagt að enn sé ekkert sem bendi til þess að sjúkdómurinn berist á milli manna heldur hafi fólkið smitast af dýrum á matarmarkaði í borginni. Ferguson telur að gera verði ráð fyrir því að sjúkdómurinn geti smitast manna á milli.

Lungnabólgan orsakast af svokallaðri kórónaveiru, en það er samskonar veira og orsakaði SARS lungnabólguna sem olli miklum áhyggjum í upphafi aldarinnar. Ferguson segir að líta verði til þess hvað vitað sé um hvernig kórónaveirur haga sér.

„Miðað við það sem við vitum um kórónaveirur þá finnst mér ólíklegt að aðalsmitleiðin sé frá dýrum yfir í menn.“

Landlæknisembættið sagði í vikunni að ekki væri talin ástæða enn sem komið er til þess að gefa út ferðaviðvaranir til Kína en bað fólk sem hefði ferðast nýlega til Kína að láta heilbrigðisstarfsfólk vita ef það þyrfti að leita til læknis vegna kvefeinkenna.

Hvorki er til lyf eða bóluefni við sjúkdómnum.