Könnun á vegum Art UK hefur leitt í ljós að finna má fleiri styttur af dýrum en nafn­greindum konum í Lundúnum. Um 1500 styttur eða minnis­varðar eru í bresku höfuð­borginni en að­eins fimm­tíu þeirra eru af nafn­greindum konum á meðan nærri hundrað eru af dýrum. BBC greinir frá.

Að sama skapi eru að­eins þrjár styttur til­einkaðar lituðum konum en Sadiq Khan borgar­stjóri Lundúna hefur sagt að mikil þörf sé á því að auka fjöl­breytni í al­mennings­rýmum borgarinnar.

„Fjöl­breyti­leiki er mesti styrk­leiki Lundúna en um of langan tíma hafa styttur, götu­heiti og byggingar höfuð­borgar okkar að­eins sýnt tak­markað sjónar­horn á flókna sögu borgarinnar,“ segir Khan.

Í dag eru ní­tján minnis­varðar og styttur í Lundúnum til­einkaðir Breta­drottningum, níu af Viktoríu drottningu, fjórar af Elísa­betu Eng­lands­drottningu og þrjár af Önnu Breta­drottningu.

Þá eru einnig styttur af hjúkrunar­fræðingunum Mary Seaco­le, Flor­ence Nightinga­le og Edith Ca­vell og poppsöngkonunni Amy Winehouse.

Veita einni milljón punda í verk­efnið

Borgar­yfir­völd Lundúna hafa til­kynnt að þau muni veita fjár­magn upp á eina milljón punda, and­virði rúmra 178 milljóna ís­lenskra króna, til að skapa nýja og fjöl­breyttari list.

Til­kynnt var um fjár­veitinguna á síðasta ári í kjöl­far þess að stytta af þræla­haldaranum Edward Col­ston í Bristol var rifin í mót­mælum. Gjörningurinn olli miklum deilum í Bret­landi um það hvernig bresk þjóðar­saga er túlkuð í minnis­vörðum og lista­verkum.

Sadiq Khan segir að nefndin sem mun sjá um að út­hluta fjár­magninu muni ekki hafa það hlut­verk að fjar­lægja styttur en hún gæti leitt til þess að „nýjar hug­myndir“ að götu­heitum verði lagðar fram.

„Ég er á­kveðinn í því að gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja að al­manna­rými okkar bjóði upp á heild­rænni mynd af öllum þeim sem hafa gert London að þeirri ó­trú­legu borg sem hún er í dag,“ segir Khan.