Giannis Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, sagði að fjölgun stórmóta í knattspyrnu gæti leitt til þess að færri Afríkubúar myndu sækjast eftir því að smygla sér leið inn til Evrópu.

Þessi umdeildu ummæli féllu þegar Infantino var að kynna hugmyndir FIFA um að fjölga stórmótum í knattspyrnu fyrir Evrópuráðs­þinginu í gær.

„Við þurfum að veita Afríkubúum von um að þeir þurfi ekki að fara yfir Miðjarðarhafið í leit að betra lífi, sem endar því miður oftast með dauðsföllum. Við þurfum að veita möguleika, en ekki með góðgerðarstarfsemi, heldur með því að veita þeim möguleika á að vera samkeppnishæf.“

Infantino hefur undanfarna mánuði boðað breytingar á knattspyrnudagatalinu, þar sem það yrði stórmót í knattspyrnu á hverju ári.

Aðildarfélög innan Evrópu eru mótfallin hugmyndinni og tók Evrópuráðsþingið í sama streng í gær.

Hugmyndin hefur helst fengið góðar undirtektir í Afríku.