Fregnir frá Srí Lanka herma að sjöunda og áttunda sprengju­á­rásin hafi átt sér stað þar í landi. Greint var frá því í morgun að á annað hundrað manns væru látin eftir sex sprengju­á­rásir víðs vegar um landið.

Á­rásunum var einkum beint gegn hótelum og kirkjum. Þannig sprakk sprengja í St. Sebastíans­­kirkjunni í borginni Negombó en talið er að 67 hafi látist þar. Þá lést fjöldi fólks vegna sprenginga á helgi­­staðnum St. Ant­hony's í Kochchika­de í höfuð­­borginni Kólombó. Einn lést á veitinga­­stað á hótelinu Cinna­mon Grand, sem er skammt frá hús­­næði for­­sætis­ráð­herra landsins.

Nú hefur verið greint frá því að önnur sprenging hafi átt sér stað á Tropical Inn-gistiheimilinu í Dehiwela, skammt frá Kolombó. Tala látinna hefur jafnframt hækkað í 156 og eru hundruð særðir. Yfirvöld hafa boðað að útgöngubann taki gildi klukkan 18 í kvöld, hálfeitt að íslenskum tíma, og hafa íbúar því þrjár klukkustundir til að koma sér heim. Útgöngubannið mun standa yfir í tólf klukkustundir.

Fulltrúar varnarmálaráðuneytis Srí Lanka og hersins segja útgöngubannið til þess fallið að tryggja öryggi fólks. Yfirvöld séu með góða stjórn á aðstæðum og telji sig vita hverjir standi að baki árásunum. „Tilgreint hefur verið um hverja ræðir og verða þeir teknir í varðhald von bráðar,“ segir í tilkynningu.

Fjöldi stjórnmálamanna hefur fordæmt árásirnar og vottað srílönksku þjóðinni samúð sína.