Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, segir meira um að fólk smitist aftur af kórónu­veirunni sem veldur CO­VID-19 nú um mundir en áður. Dæmi eru um að fólk sem hafi jafn­vel smitast tvisvar áður, smitist nú í þriðja skiptið með veiruna.

„Það er meira um það,“ segir Þór­ólfur í sam­tali við Frétta­blaðið spurður hvort fleiri smitist nú aftur en áður. „Við sjáum að sér­stak­lega þeir sem smituðust í fyrsta sinn á árinu 2020 og 2021 þeir eru meira að endur­smitast núna, það er allt upp í 20 prósent af þeim sem fara í opin­ber próf, sér­stak­lega núna upp á síð­kastið.“

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá ganga nú um heiminn ný undir­af­brigði af Ó­míkrón sem kennd eru við BA og tölu­stafi. Nýjasta af­brigðið, BA5 er talið sér­stak­lega smitandi.

Þór­ólfur segir tvennt geta út­skýrt hvers vegna svo margir smitist nú að nýju. „Það getur bæði verið það að þessi af­brigði sem voru í gangi í fyrstu bylgju far­aldursins veiti ekki alveg nægi­lega góða vernd gagn­vart þessum nýju af­brigðum og svo líka hitt að það er liðinn meiri tími og við vitum að með tímanum dvínar ó­næmið og kannski er það sam­blanda af þessu sem veldur þessu.“

Þór­ólfur tekur fram að ekki sé mikið um að þeir sem fengið hafi Ó­míkrón af­brigðið hafi smitast aftur að nýju, þó dæmi séu um það. Lítið sé vitað um lang­tíma­á­hrif af slíkum endur­sýkingum.

„Við vitum að endur­smitin eru ekki eins al­var­leg og fyrri smit, þannig að eftir því sem fólk smitast oftar ættu ein­kennin að vera vægari og við vitum að kórónu­veirur eru al­gengar kvef­veirur,“ segir Þór­ólfur.

„Þannig að kannski mun fólk sem smitast aftur fá vægari kvef­ein­kenni. Það er hugsan­legt,“ segir sótt­varna­læknir sem kveðst slakur yfir nýjustu vendingum í far­aldrinum en þó á varð­bergi.

„Spurningin er svo hvort það muni koma fram ný af­brigði sem verða allt öðru­vísi, mér finnst það mjög ó­lík­legt en við þurfum að vera á verði.“