Eftir nokkurra ára sam­drátt í notkun ópíóíða má sjá lítils háttar fjölgun ein­stak­linga sem leystu út lyfja­á­vísun á ópíóíða árið 2021. Þetta kemur fram í nýjasta Talna­brunni em­bættis land­læknis en sam­kvæmt honum sam­svarar þetta því að ríf­lega 61 þúsund ein­staklingar hafi leyst út að minnsta kosti eina á­vísun á ópíóíða á árinu 2021 saman­borið við ríf­lega 57 þúsund árið áður.

Sam­kvæmt Talna­brunni eru lyf í flokki blöndu kódeíns og para­seta­móls mest notuðu lyfin í flokki ópíóíða eða 67 prósent af því heildar­magni sem notað var af ópíóíðum árið 2021. Til þess lyfja­flokks teljast meðal annars Parkódín og Parkódín forte.

Sam­kvæmt talna­brunninum er eins og áður munur á notkun ópíóíða eftir kyni og eru konur meiri­hluti not­enda.

Árið 2021 leystu 19,6 prósent kvenna út á­vísun á ópíóíða saman­borið við 13,8 prósent karla. Notkun ópíóíða vex með hækkandi aldri en árið 2021 leystu ríf­lega 35 prósent ein­stak­linga yfir átt­ræðu út á­vísun á ópíóíða. Í Talna­brunninum kemur fram að nokkur aukning hafi orðið í fyrra í öllum aldurs­hópum að undan­skildum þeim yngsta.

Í um­ræðum við Talna­brunninn kemur fram að em­bætti land­læknis, á­samt öðrum stofnunum, hefur beitt sér fyrir mót­vægis­að­gerðum til að sporna við of­notkun ópíóíða og til að bæta öryggi verkja­lyfja­með­ferðar á Ís­landi.

Sem dæmi um að­gerðir hafa nú allir læknar að­gang að lyfja­gagna­grunni sem gerir ein­stak­lingum erfiðara að fara á milli lækna til að verða sér úti um sama lyf hjá fleiri en einum lækni. Þá kemur fram að til þess að notkun ópíóíða verði við­líka því sem er meðal ná­granna­þjóða okkar þarf hún að dragast saman hér á landi og á það sér­stak­lega við um notkun á Parkódín og/eða Parkódín forte.

Vakin er at­hygli á því að á árinu 2021 var það svo að af 4.209 ein­stak­lingum sem leystu lyfin út voru 1.801 eða 42 prósent sem leystu lyfin út einu sinni og við það vakni spurningar um það hvort að lyfjunum sé á­vísað áður en fólk finnur til verkja, til dæmis eftir að­gerð. Lyfin séu svo leyst út án þess að vera jafn­vel notuð en þá eykst hættan á því að af­gangslyf komist í hendur á þriðja aðila.

Em­bætti land­læknis beinir því þeim ein­dregnu til­mælum til lækna að á­vísa vægari verkja­lyfjum fremur en ópíóíðum og að hafa hug­fast að heimilt er að á­vísa minna magni lyfs en sem nemur minnstu pakkningu.