Fleiri og fleiri sam­flokks­menn Banda­ríkja­for­seta Donalds Trumps hafa þrýst á hann að láta af öllum til­raunum sínum til að fá úr­slitum for­seta­kosninganna snúið sér í vil. Al­ríkis­dómari í Penn­syl­vaníu vísaði mál­sókn for­setans frá í gær og sagði á­sakanir hans byggða á til­gátum. Hann líkti mál­sókninni þá við „skrímsli Franken­stein“. Í dag fór Trump svo fram á endur­talningu í Georgíu, þrátt fyrir að talningin hafi þegar verið stað­fest þar.

For­ysta Repúblikana hefur stutt for­setann í á­sökunum sínum um að kosningunum hafi verið stolið frá sér með víð­tæku kosninga­svindli. Sumir hátt­settir innan flokksins hafa þó gagn­rýnt for­setann harð­lega, þar á meðan fyrrum þjóðar­öryggis­ráð­gjafi Trumps, John Bol­ton, sem sagði að engin spurning væri um að Biden tæki við em­bættinu í janúar og bætti svo við að: „Raun­veru­lega spurningin er hversu miklum skaða Trump getur valdið áður það gerist.“

Í sam­tali við CNN sagði Bol­ton að til­raunir for­setans væru til þess fallnar að skapa glund­roða meðal al­mennings. Trump sé þannig frekar að reyna að sýna pólitískt vald sitt en að reyna í al­vöru að fá niður­stöðum kosninganna hnykkt með lögum.

Enn sem komið er hefur teymi for­setans lagt fram fleiri en 30 kærur í tengslum við kosningarnar í fjölda ríkja og var öllum nema tveimur þeirra vísað frá.

Skammast sín fyrir flokkinn

Annar fyrrum þjóðar­öryggis­ráð­gjafi Trumps, H.R. McMa­ster, sagði þá í sam­tali við CBS að til­raunir for­setans væru mjög skað­legar. Þannig væru fleiri og fleiri kjós­endur farnir að efast um lög­mæti kosninganna þó að enginn fótur væri fyrir þeim á­sökunum. „Þetta spilar upp í hendurnar á and­stæðingum okkar,“ sagði hann.

H.R. McMaster var einnig þjóðaröryggisráðgjafi Trumps um stund.
Fréttablaðið/Getty

Fylkis­stjóri Mary­land, Larry Hogan, sem kemur einnig úr röðum Repúblikana, sagðist einnig viss um að Biden tæki við em­bættinu í janúar. Hann sagðist skammast sín á skorti á for­ystuhæfileikum innan flokksins.