Fleiri og fleiri samflokksmenn Bandaríkjaforseta Donalds Trumps hafa þrýst á hann að láta af öllum tilraunum sínum til að fá úrslitum forsetakosninganna snúið sér í vil. Alríkisdómari í Pennsylvaníu vísaði málsókn forsetans frá í gær og sagði ásakanir hans byggða á tilgátum. Hann líkti málsókninni þá við „skrímsli Frankenstein“. Í dag fór Trump svo fram á endurtalningu í Georgíu, þrátt fyrir að talningin hafi þegar verið staðfest þar.
Forysta Repúblikana hefur stutt forsetann í ásökunum sínum um að kosningunum hafi verið stolið frá sér með víðtæku kosningasvindli. Sumir háttsettir innan flokksins hafa þó gagnrýnt forsetann harðlega, þar á meðan fyrrum þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, John Bolton, sem sagði að engin spurning væri um að Biden tæki við embættinu í janúar og bætti svo við að: „Raunverulega spurningin er hversu miklum skaða Trump getur valdið áður það gerist.“
Í samtali við CNN sagði Bolton að tilraunir forsetans væru til þess fallnar að skapa glundroða meðal almennings. Trump sé þannig frekar að reyna að sýna pólitískt vald sitt en að reyna í alvöru að fá niðurstöðum kosninganna hnykkt með lögum.
Enn sem komið er hefur teymi forsetans lagt fram fleiri en 30 kærur í tengslum við kosningarnar í fjölda ríkja og var öllum nema tveimur þeirra vísað frá.
Skammast sín fyrir flokkinn
Annar fyrrum þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, H.R. McMaster, sagði þá í samtali við CBS að tilraunir forsetans væru mjög skaðlegar. Þannig væru fleiri og fleiri kjósendur farnir að efast um lögmæti kosninganna þó að enginn fótur væri fyrir þeim ásökunum. „Þetta spilar upp í hendurnar á andstæðingum okkar,“ sagði hann.

Fylkisstjóri Maryland, Larry Hogan, sem kemur einnig úr röðum Repúblikana, sagðist einnig viss um að Biden tæki við embættinu í janúar. Hann sagðist skammast sín á skorti á forystuhæfileikum innan flokksins.