Hlutfall launþega með tímakaup undir láglaunamörkum árið 2018 var hærra á Íslandi en á öllum hinum Norðurlöndunum, eða 11,2 prósent. Í Evrópu var hlutfallið lægst í Svíþjóð, 3,6 prósent, og hæst í Lettlandi, 23,5 prósent. Þetta kemur fram í niðurstöðum samevrópskrar rannsóknar sem birtar voru á vef Hagstofunnar.

Tímakaup á Íslandi umreiknað í evrur var þriðja hæst í Evrópu árið 2018 en hæst í Danmörku og því næst í Noregi. Sé tímakaup reiknað út með tilliti til verðlags með jafnvirðisgildum er Ísland í áttunda sæti yfir lönd þar sem mest fæst fyrir launin og Danmörk í því fyrsta. Minnst fæst fyrir launin í Albaníu þar sem miðgildi tímakaups í evrum er einnig lægst í Evrópu.