Áætlað er að leit hefjist aftur af skipverjanum, sem talinn er hafa fallið fyrir borð í Vopnafirði, upp úr klukkan 10 í dag.

Verður áfram leitað á sama svæði og í gær en að öllum líkindum með meiri mannskap en áður.

Ekki liggur enn fyrir hve margir muni taka þátt í leitinni, að sögn Hinriks Ingólfssonar, formanns björgunarsveitarinnar Vopna á Vopnafirði.

Heimamenn standa að leitinni í dag og reiknar Hinrik með því að auðveldara verði að fá fólk til að veita liðsinni í ljósi þess að margir séu í fríi.

Hópurinn ætlar að fínkemba leitarsvæðið sem nær frá Tangasporði inn í Sandvík og sandfjörurnar í botni Vopnafjarðar, ganga fjörur og fara með bátum meðfram ströndinni.

Leit að skipverjanum var hætt upp úr klukkan 14 í gær þegar aðstæður voru ekki lengur heppilegar til leitar og ekki hægt að leita á sjó.

Í dag verður notast við björgunarskipið Svein­björn Sveins­son, slöngubát og sjókött sem fara munu meðfram strandlengjunni.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er skip­verjinn með­limur í 15 manna á­höfn á skipinu Er­ling KE- 140. Skipið er í eigu Salt­ver ehf. en Brim hf. er með skipið í leigu og er skráður út­gerðar­aðili þess.

Allt að 170 manns tóku þátt í leitinni að honum á þriðjudag. Eftir­lits­flug­vél Land­helgis­gæslunnar, TF-SIF, var þá send til Vopna­fjarðar til að að­stoða við leitina.