Næsta skref í af­léttingu ferða­tak­markana verður tekið þann 13. júlí næst­komandi ef heil­brigðis­ráð­herra fellst á til­lögur sótt­varna­læknis. Þá mega tvö þúsund manns koma saman í einu.

Þórólfur Guðna­son sótt­varna­læknir til­kynnti þetta á upp­lýsinga­fundi Al­manna­varna í dag. Hann sagðist ætla að leggja fram til­lögu til heil­brigðis­ráð­herra þess efnis að sam­komu­tak­markanir yrðu rýmkaðar í tvö þúsund manns þann 13. júlí.

Lengra nú á milli afléttinga

Síðast voru tak­markanirnar rýmkaðar úr hundrað manns sem máttu koma saman upp í fimm hundruð þann 15. júní síðast­liðinn. Ætlunin er að af­létta sam­komu- og fjölda­tak­mörkunum í hægum skrefum og hefur venjan verið að rýmka þær með þriggja vikna fresti.

Þór­ólfur sagði í ljósi þess að mikið væri að gerast í sam­fé­laginu nú og landið að taka á móti ferða­mönnum í nokkrum mæli þá þætti sér skyn­sam­legast að láta fjórar vikur líða frá síðustu af­léttingu til þeirrar næstu í þetta skiptið.

Heil­brigðis­ráð­herra hefur hingað til fallið að til­lögum sótt­varna­læknis um af­léttingarnar. Hann sagði það þá til skoðunar að lengja opnunar­tíma á veitinga- og skemmti­stöðum en þeir mega að­eins hafa opið til klukkan 23 á kvöldin eins og stendur.

Hann sagði að það yrði skoðað á næstunni og kynnt í fram­haldinu.