Hertari smit­varna­reglur á fæðingar­vakt Land­spítalans hafa orðið til þess að mæður kjósa í auknum mæli að fara heim beint eftir fæðingu og hljóta heima­þjónustu ljós­móður. Í lok mars var tekin sú á­kvörðun að makar fengju ekki að fylgja konum inn á sængur­­legu­­deild eftir fæðingu, eftir að ný­bakaður faðir greindist með veiruna á deildinni.

Meiri­hluti kvenna kýs þó enn að leggjast inn á sængur­legu­deild í kjöl­far fæðingu en fleiri en áður nýta sér val­mögu­leikann að fá fara heim eftir barns­burð. Sá val­mögu­leiki stendur þó ekki öllum konum til boðana og er mæðrum sem eru að eignast sitt fyrsta barn oftast ráð­lagt að dvelja á deildinni fyrst um sinn.

Aukinn kvíði á fæðingar­vaktinni

Anna Sig­ríður Vern­harðs­dóttir, yfir­ljós­móðir Land­spítalans, hefur orðið vör við að verðandi mæður finni fyrir auknum kvíða vegna fæðinga í á­standinu sem nú skekur sam­fé­lagið.

„Breyttum reglum á fæðingar­deildinni fylgir skiljan­lega á­kveðin streita en samt sem áður finnum við líka fyrir því að bæði menn og konur hafa mikinn skilning á því hvers vegna við þurfum að tak­marka við­veruna á spítalanum.“

Það er enn nóg að gera á fæðingarvaktinni þrátt fyrir heimsfaraldur.
Fréttablaðið/Valli

Stytta tíma maka við fæðingu

Við­vera að­stand­enda hefur einnig verið tak­mörkuð við fæðingu og fá nú makar að­eins að vera við­staddir við fæðingu eftir að kona er komin í virka fæðingu og í einn til tvo tíma eftir að barn kemur í heiminn.

„Við reynum að stytta tíman sem að­stand­endur eru á staðnum þar sem stundum er mjög langur að­dragandi að fæðingunni.“

Metið sé að hverju sinni frá hvaða tíma­punkti að­standanda stendur til boða að vera við­staddur og haft sam­band þegar leyfi fæst til að koma inn á spítalann. Þá er einnig er mikil­vægt að maki virði tveggja metra fjar­lægðar­mörk frá starfs­fólki eins og mögu­legt er og fari eftir þeim leið­beiningum sem hann fær við komu á deildina.

Með að­gerðunum er verið að tak­marka sam­neyti við starfs­fólk eins og unnt er. „Við erum að reyna að vernda starf­semina þannig að við getum haldið uppi þessari mikil­vægu og við­kvæmu þjónustu.“

Að­stand­endur verði ekki bannaðir

Anna segir það ekki standa til að banna að­stand­endum al­farið að vera við­staddir við fæðingu. „Ég vona að það verði aldrei þannig og við munum reyna að tryggja örugga við­veru að­stand­enda á deildinni á­fram.“

Að­stand­endur geta nú fylgt konu í fæðingu svo framar­lega sem þau hafa engin ein­kenni um að vera veik. Þá er mælt með því að barns­hafandi konur og að­stand­endur fæðinga fari í sjálf­skipaða sótt­kví frá 36. viku með­göngu til að draga úr líkum á smiti.