„Það var algjör sprenging hjá okkur í haust,“ segir Berglind Gunnarsdóttir Strandberg, framkvæmdastjóri Foreldrahúss, um aukningu í aðsókn til samtakanna í kjölfar kórónaveirufaraldursins.

„Aukningin í kjölfar COVID var slík að ég þurfti að ráða inn manneskju til að sinna öllum þeim sem til okkar leita,“ segir Berglind. Í Foreldrahúsi er boðið upp á ráðgjöf í formi viðtala og námskeiða fyrir börn og unglinga í vanda og foreldra þeirra.

Berglind segir þau mál sem koma inn á borð Foreldrahúss jafn ólík og þau séu mörg. Um sé að ræða mál er tengist ofbeldi, neyslu, samskiptum og áhættuhegðun.

„Núna erum við svolítið að bíða eftir þeim krökkum sem voru að byrja í framhaldsskóla í haust en gátu ekki mikið farið í skólann,“ segir hún, en nemendur í framhaldsskólum hafa síðastliðið ár að miklu leyti verið í fjarnámi vegna sóttvarnareglna og samkomutakmarkana.

„Það er mikil vanlíðan hjá þessum krökkum,“ segir Berglind.

„Í vetur höfum við líka fengið inn á borð hjá okkur ofbeldismál, bæði þar sem ungmenni eru gerendur og þar sem ofbeldi er á heimilum,“ bætir hún við.

Berglind segir þráðinn stuttan hjá stórum hópi foreldra og að faraldrinum hafi fylgt mikið álag á fjölskyldur. „Þar sem ástandið var ekki gott fyrir, þá hefur það ekki batnað í faraldrinum, það er óhætt að segja að það hafi frekar versnað.“

Hvað varðar neyslu unglinga segist Berglind hafa orðið vör við að það örli á sofandahætti hjá foreldrum. „Fólk er ekki alveg vakandi fyrir því hvað börnin þeirra eru að gera og að það gæti verið hættulegt,“ segir hún og tekur dæmi um neyslu á efninu Spice.

„Það er kemískt efni sem erfitt er að greina og unglingar virðast vera dálítið að nota það. Um er að ræða baneitrað og hættulegt efni,“ segir Berglind. „Svo eru kannabisefni alltaf vinsæl og þau eru sterkari en áður,“ bætir hún við.

Spurð að því hvað sé til ráða segir Berglind að mikilvægt sé að leita til ráðgjafa sem fyrst. „Það er betra að koma í viðtal sem fyrst í stað þess að lenda í miklum vanda,“ segir hún og hvetur foreldra til að grípa sem fyrst inn í, gruni þá að börnin þeirra séu að fikta við vímuefni eða upplifi vanlíðan.

„Það er betra en að banna hitt og þetta, slíkar hótanir virka ekki,“ segir Berglind. Þá segir hún að þrátt fyrir faraldurinn hafi nánast tekist að halda allri starfsemi Foreldrahúss gangandi. Fresta hafi þurft námskeiðum fyrir foreldra vegna plássleysis en samtökin safna nú fyrir nýju húsnæði.

„Við erum í leiguhúsnæði sem okkur er ekki tryggt og því fylgir óvissa, draumurinn er að kaupa okkar eigið húsnæði,“ segir Berglind.