Neikvæðum umsögnum um ilmkerti virðist hafa farið fjölgandi samhliða því að Covid-19 faraldurinn hefur sótt í sig veðrið í Bandaríkjunum.

Þetta er niðurstaða Kate Petrova, sem starfar við Harvard Study of Adult Development-stofnunina við Bryn Mawr-háskóla. Telur hún þetta vera athyglisverða þróun í ljósi þess að breytingar lyktarskyni er algengt einkenni Covid-19.

Samkvæmt grúski hennar hafa viðskiptavinir bandarísku Amazon-vefverslunarinnar að jafnaði gefið vinsælum ilmkertum lakari stjörnugjöf það sem af er þessu ári samanborið við 2019.

Þá segir hún að hlutfall nýrra umsagna sem nefni lyktarskort hafi farið úr 2% í janúar síðastliðnum í nærri 6% í nóvember. Á sama tíma er ekki að sjá miklar breytingar á umsögnum fólks um kerti sem eru án ilms. 

Petrova leggur áherslu á að niðurstöðurnar séu einungis til gamans gerðar og að fara þurfi varlega í að túlka tölurnar. Þörf sé á frekari rannsóknum áður en hægt sé að álykta hvort um raunverulega fylgni sé að ræða fjölgunar Covid-19 tilfella og óánægju kertakaupanda.

Moritz Wagner, doktorsnemi við London School of Hygiene & Tropical Medicine, tekur vel í niðurstöður Petrova og vekur athygli á því á Twitter að vísbendingar séu um svipaða þróun þegar hann skoðar breskar umsagnir um ilmvötn.

Brenglun á bragð- og lyktarskyni eru talin vera ein algengustu einkenni Covid-19 sjúklinga líkt og áður segir. Þá eru einnig dæmi um að einstaklingar upplifi áfram brenglað lyktarskyn löngu eftir að það hafi annars jafnað sig eftir sýkinguna. Sú staðreynd gæti mögulega einnig haft áhrif á upplifun fólks af ilmkertum.