Hlutfall kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytanna var 51 prósent á síðasta ári, en þetta er þriðja árið í röð sem konur eru fleiri en karlar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Jafnréttisstofu um nefndir, ráð, og stjórnir á vegum ráðuneytanna á árinu 2021.

Þá eru 72 prósent starfandi nefnda rétt skipuð, en þeim fækkar um tvö prósent frá fyrra ári. Þetta er í fyrsta sinn sem hlutfallið lækkar milli ára, allt frá því lög um skipan nefnda tóku gildi árið 2008.