Viðsnúningur hefur orðið á atvinnuleysisskrá frá því í vor og nú missa fleiri konur vinnuna en karlar. Er atvinnuleysi meðal kvenna nú hálfu prósentustigi meira en meðal karla, en þegar fyrri bylgja faraldursins gekk yfir í vor voru þær einu prósentustigi undir. Mestur er munurinn á Suðurnesjum, þar sem atvinnuleysi kvenna er fimm prósentum meira en hjá körlum.

Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir þetta eiga sér skýringu í auknum uppsögnum í ýmissi félagaþjónustu og menningartengdri starfsemi. Iðnaður, sjávarútvegur og fleiri greinar þar sem karlmenn eru í miklum meirihluta komi betur út úr faraldrinum. Athygli vekur að atvinnuleysi kvenna eykst skarpt þó að ekki hafi verið mikil aukning úr heilbrigðisgreinum eða menntun á skránni.

Atvinnuleysi var 8,5 prósent í lok ágústmánaðar og 9,4 þegar þeim sem eru í lækkuðu starfshlutfalli er bætt við, samanlagt rúmlega 21 þúsund manns. Er þetta aukning um 0,6 prósent frá júlímánuði. Þessi aukning skýrist að stórum hluta af því að fólk sem sagt var upp í vor hafi verið að ljúka uppsagnarfresti. „Í byrjun sumars áttum við von á að þessi hækkun yrði minni en þegar líða tók á sumarið vorum við farin að sjá þetta fyrir,“ segir Karl.

Býst Karl við stöðugri hækkun fram að áramótum og að atvinnuleysi verði þá í kringum tíu til ellefu prósent. Erfiðara sé að segja til um næsta ár þar sem ástandið vegna heimsfaraldursins er hverfult, en hann býst við því að ekki verði miklar breytingar frá áramótum fram í mars. Það sé þróun atvinnuleysis í venjulegu árferði.

„Við erum frekar bjartsýn á að það fari að rofa til í apríl og maí og atvinnuleysi fari þá minnkandi,“ segir hann.

Eins og áður eru það ferðaþjónustan og flugtengdar greinar sem fara verst út úr faraldrinum. Rúmur þriðjungur á atvinnuleysisskrá kemur úr þessum greinum. Aðeins á Vestfjörðum standa tölurnar í stað en aukningin er á bilinu 0,2 til 0,6 prósent víðast hvar á landinu. Á Suðurnesjum jókst atvinnuleysi um 1,5 prósent milli mánaða.

Langtímaatvinnuleysi hefur aukist mikið frá því í fyrra, úr 1.379 í 3.051 hjá þeim sem hafa verið án atvinnu í meira en eitt ár. Aukningin er svipuð hjá þeim sem hafa verið atvinnulausir í meira en hálft ár. Um 40 prósent atvinnulausra eru erlendir ríkisborgarar og langstærstu hóparnir Pólverjar og Litháar.

Stjórnvöld framlengdu hlutabótaleiðina fram að áramótum. Í aprílmánuði voru tíu prósent vinnufærra á þeirri leið en hlutfallið hefur síðan lækkað skarpt. Þrjá mánuði í röð hefur tæplega eitt prósent verið á hlutabótaleið og gerir Karl ekki ráð fyrir öðru en að það haldist fram að áramótum. „Þetta er úrræði sem nýtist ekki mörgum. Það þarf alltaf að greiða hálf laun og atvinnurekendur nota þetta ekki nema þeir sjái fram á að reksturinn komist í gang aftur innan tveggja eða þriggja mánaða.“

Karl Sigurðsson