Nærri helmingur Íslendinga eru hlynntir aðild að Evrópusambandinu og rúmur þriðjungur andvígur samkvæmt nýrri könnun Prósents. Alls sögðust 48,5 prósent vera hlynnt og 34,9 andvíg. Aðeins 16,7 prósent sögðust ekki hafa skoðun á málinu.

Á undanförnum áratug eða svo hafa kannanir hinna ýmsu fyrirtækja vanalega sýnt í kringum 30 prósenta stuðning við aðild Íslands að Evrópusambandinu en á bilinu 40 til 50 prósenta andstöðu.

Hin nýja könnun Prósents er hins vegar önnur könnunin á árinu sem sýnir fleiri jákvæða en neikvæða. Í þjóðarpúlsi Gallup frá því í mars voru hlutföllin mjög svipuð, 47 prósent á móti 33.

Í könnun Prósents kemur fram að flokkspólitískar skoðanir vega þungt í afstöðunni til Evrópusambandsaðildar. Jákvæðastir eru kjósendur Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata með á bilinu 82 til 86 prósent hlynnt aðild en innan við 10 prósent andvíg.

Athygli vekur að fleiri kjósendur Vinstri grænna eru hlynntir Evrópusambandsaðild en andvígir, 41 prósent á móti 34. Flokkurinn er einnig sá sem hefur flesta óákveðna í afstöðunni, það er 24 prósent. En samkvæmt stefnu flokksins er „hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan.“

Bláir eru hlynntir aðild að Evrópusambandinu, gráir hlutlausir en rauðir andvígir.
Mynd/Fréttablaðið

Stuðningurinn er heldur meiri hjá kjósendum Sósíalistaflokksins þar sem 48 prósent eru hlynnt aðild en 32 prósent andvíg.

Rúmur þriðjungur Framsóknarmanna styður Evrópusambandsaðild, 34 prósent, en 54 á móti. Þetta eru mjög svipuð hlutföll og hjá kjósendum Flokks fólksins, en þar á bæ eru mun fleiri sem hafa ekki skoðun, 21 prósent.

22 prósent Sjálfstæðismanna styðja Evrópusambandsaðild en 66 prósent eru á móti. Minnstur stuðningurinn er hins vegar hjá kjósendum Miðflokksins, aðeins 9 prósent eru hlynnt aðild en 73 prósent á móti.

Meirihluti kjósenda á höfuðborgarsvæðinu, 52 prósent, styður aðild en 32 prósent eru á móti. Þetta er meiri stuðningur en á landsbyggðinni þar sem stuðningurinn er þó 41 prósent á móti 39.

Þegar litið er til kynja er munurinn ekki mjög mikill. Karlar hafa hins vegar sterkari skoðanir á Evrópusambandsaðild en konur, bæði með og á móti.

Meirihluti fólks á aldrinum 35 til 54 ára styður aðild að Evrópusambandinu en minnsti stuðningurinn er hjá yngsta og elsta fólkinu. Hjá hópnum 65 ára og eldri er nærri helmingur beinlínis andvígur aðild en stór hluti yngsta hópsins, 18 til 24 ára, hefur ekki skoðun á málinu, það er 37 prósent.

Könnunin var netkönnun framkvæmd 2. til 13. júní. Úrtakið var 1.780 og svarhlutfallið 50,1 prósent.