Um 85 prósent ný­nema fengu inni í þeim framhaldsskólum sem þeir sóttu um í fyrsta vali, flestar um­sóknir bárust til Tækni­skólans fyrir haustönn 2021 og fleiri karl­kyns nem­endur séu í fram­halds­skóla­námi en kven­kyns.

Allt þetta kemur fram í nýjum gögnum sem Mennta­mála­stofnun birtir í dag á vef sínum um sam­setningu fram­halds­skóla­nema á Ís­landi og svo um inn­ritun nem­enda á þremur síðustu önnum.

„Allt sem er þarna um haust­önn 2021 er nýtt,“ segir Arnar Sig­björns­son, sér­fræðingur í fram­halds­skóla­málum, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Í til­kynningu segir að Mennta­mála­stofnun hafi tekið saman helstu tölur um nem­endur fram­halds­skólanna á haust­önn 2021. Um tvær greiningar er að ræða og fjallar önnur um um­sóknir og inn­ritun á haust­önn. Heildar­fjöldi um­sókna var 8.899, þar af voru ný­nema­um­sóknir 4.214.

Hin greiningin fjallar um sam­setningu fram­halds­skóla­nema í heild. Í henni má bera saman nem­enda­sam­setningu síðustu þriggja anna. Greiningarnar sýna, meðal annars, skiptingu nem­enda eftir náms­leiðum, kynjum, aldri, eininga­fjölda og lands­hlutum.

„Það er hægt að bera nýjustu gögnin saman við haust­önn 2020 en þá gerðum við þetta líka, en með að­eins öðrum hætti, og svo líka vor­önn 2021,“ segir Arnar.

Dæmi um framsetningu gagnanna á vef Menntamálastofnunnar.

Stefnan að uppfæra gögnin á hverri önn

Upp­lýsingarnar birtast nú í fyrsta skipti með gagn­virkum hætti í Power BI. Það gerir les­endum kleift að sía gögnin miðað við til­teknar for­sendur og rýna í þau með mark­vissari hætti en áður.

„Fram að þessu gáfum við út PDF skjöl sem voru birt á netinu, en með þessu er hægt að grúska meira í þessu. En á móti kemur að þá er hægt að gera svo mikið að það getur ruglað fólk,“ segir Arnar.

Hann segir að stefnan sé að upp­færa gögnin á hverri önn og svo geti valið eina önn til að skoða.

„Þetta er nýtt fyrir okkur að setja þetta svona fram og við erum að prófa okkur á­fram en það er klárt að við eigum eftir að taka saman tölur um annirnar fram­vegis,“ segir Arnar.

Hægt er að kynna sér gögnin betur hér.