Fleiri Ís­lendingar virðast hafa bæst í hóp þeirra sem greinst hafa með Ó­míkron af­brigðið af kórónu­veirunni en Kári Stefáns­son segir í sam­tali við Vísi að svo líti út fyrir að sjö ein­staklingar hafi greinst með af­brigðið hingað til.

Einungis er um tvær klukku­stundir síðan Kári sagði í sam­tali við Ríkis­út­varpið að tala smitaðra væri komin upp í þrjá. Því er ljóst að enn bætist í hópinn miðað við greiningar­vinnu á Land­spítalanum.

Eins og fram hefur komið greindist karl­maður á átt­ræðis­aldri með af­brigðið í gær og var hann sá fyrsti hér á landi. Ekki er ljóst hvernig hann smitaðist en hann var bú­settur á Akra­nesi og hafði ekki komið er­lendis frá.

Kári í­trekar í sam­tali við Vísi að vísinda­menn hafi engin gögn í höndum sem bendi til þess að bólu­efni virki verr gegn Ó­míkron af­brigðinu. Þvert á móti séu ýmsar stökk­breytingar í Ó­míkron af­brigðinu sem séu til staðar í öðrum af­brigðum sem bólu­efnin vinni geng.

Ó­míkron af­brigðið greindist fyrst í Suður Afríku en nokkuð ljóst er að það var tölu­vert dreifðara en menn gerðu sér grein fyrir í upp­hafi. Það hefur nú fundist í hið minnsta 24 löndum en vísinda­menn vita enn ekki hvort það valdi meiri veikindum en fyrri af­brigði en flest bendir til þess að það sé meira smitandi.