Í maí á þessu ári bárust Lög­reglunni á Höfuð­borgar­svæðinu (LRH) 408 til­kynningar um þjófnaði og fjölgar til­kynningum tölu­vert milli mánaða, í apríl voru þær 347. Þetta kemur fram í ný­út­kominni mánaðar­skýrslu LRH fyrir maí­mánuð.

Alls bárust 89 til­kynningar um inn­brot í maí á þessu ári sem er 26 prósentum meira en að meðal­tali síðustu sex mánuði. 45 inn­brot voru á heimili eða einka­lóðir, 23 í fyrir­tæki eða stofnanir og tuttugu í öku­tæki.

Fleiri of­beldis­brot

Til­kynningum um of­beldis­brot hefur fjölgað um fjögur prósent það sem af er ári miðað við meðal­tal síðustu þriggja ára. Í maí á þessu ári bárust lög­reglunni á Höfuð­borgar­svæðinu 126 til­kynningar um of­beldis­brot. Í apríl voru slíkar til­kynningar 95 talsins og í maí á síðasta ári voru þær 106.

LRH bárust 25 til­kynningar um kyn­ferðis­brot sem áttu sér stað í maí en það sem af er ári hefur til­kynningum um slík brot fækkað um 16 prósent miðað við meðal­tal síðustu þrjú ár. Á síðustu tólf mánuðum bárust alls 326 til­kynningar um kyn­ferðis­brot til lög­reglunnar á Höfuð­borgar­svæðinu. Lang­flest voru þau í desember á síðasta ári, alls 79 talsins.

75 heimilis­of­beldis­mál í maí

Heimilis­of­beldis­málum hefur fjölgað um 21 prósent það sem af er ári miðað við síðustu þrjú ár og í maí 2021 bárust LRH 75 til­kynningar um heimilis­of­beldi. Þá bárust lög­reglunni alls sex­tán beiðnir um leit að börnum og ung­mennum í síðasta mánuði, í apríl bárust 12 slíkar beiðnir en í janúar voru þær 24 talsins.

Í maí voru skráð fjögur stór­felld fíkni­efna­brot hjá Lög­reglunni á Höfuð­borgar­svæðinu. Alls voru skráð 112 fíkni­efna­brot sem er tölu­verð fjölgun miðað við mánuðinn á undan þegar þau voru 84.