Í maí á þessu ári bárust Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu (LRH) 408 tilkynningar um þjófnaði og fjölgar tilkynningum töluvert milli mánaða, í apríl voru þær 347. Þetta kemur fram í nýútkominni mánaðarskýrslu LRH fyrir maímánuð.
Alls bárust 89 tilkynningar um innbrot í maí á þessu ári sem er 26 prósentum meira en að meðaltali síðustu sex mánuði. 45 innbrot voru á heimili eða einkalóðir, 23 í fyrirtæki eða stofnanir og tuttugu í ökutæki.
Fleiri ofbeldisbrot
Tilkynningum um ofbeldisbrot hefur fjölgað um fjögur prósent það sem af er ári miðað við meðaltal síðustu þriggja ára. Í maí á þessu ári bárust lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu 126 tilkynningar um ofbeldisbrot. Í apríl voru slíkar tilkynningar 95 talsins og í maí á síðasta ári voru þær 106.
LRH bárust 25 tilkynningar um kynferðisbrot sem áttu sér stað í maí en það sem af er ári hefur tilkynningum um slík brot fækkað um 16 prósent miðað við meðaltal síðustu þrjú ár. Á síðustu tólf mánuðum bárust alls 326 tilkynningar um kynferðisbrot til lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu. Langflest voru þau í desember á síðasta ári, alls 79 talsins.
75 heimilisofbeldismál í maí
Heimilisofbeldismálum hefur fjölgað um 21 prósent það sem af er ári miðað við síðustu þrjú ár og í maí 2021 bárust LRH 75 tilkynningar um heimilisofbeldi. Þá bárust lögreglunni alls sextán beiðnir um leit að börnum og ungmennum í síðasta mánuði, í apríl bárust 12 slíkar beiðnir en í janúar voru þær 24 talsins.
Í maí voru skráð fjögur stórfelld fíkniefnabrot hjá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu. Alls voru skráð 112 fíkniefnabrot sem er töluverð fjölgun miðað við mánuðinn á undan þegar þau voru 84.