Fleiri hús hafa orðið nýju hrauni að bráð á spænsku eyjunni La Palma. Um helgina hrundi norðurhlið gígs nýja eldgossins með þeim afleiðingum að hrauntaumurinn fann sé nýjar leiðir.

Í umfjöllun spænska miðilsins El País segir að flæði hraunsins hafi aukist þegar það hrundi úr gígnum en þrír nýir hrauntaumar mynduðust við hrunið. Viðbragðsaðilar hafa mestar áhyggjur af þeim sem rennur í áttina að iðnaðarhverfinu El Callejón de la Gata í bænum Los Llanos de Aridane.

Eldfjallamiðstöð Kanaríeyja tilkynnti í gær að hraunið hafi eyðilagt síðustu byggingarnar í norðurhluta Todoque hverfinu sem enn stóðu, en hraun gleypti nærri allt hverfið frá 30. september til 1. október.

Á myndinni, sem tekin var um helgina, má sjá hraunið renna niður.
Fréttablaðið/EPA

Þá kemur einnig fram í fréttinni að þessi hegðun gossins sé ekki óvenjuleg því um sé að ræða hraungos sem einkennist af stórum sprengingum og hægu hraunflæði og að líklegt sé að meira muni hrynja úr gígnum.

Fleiri jarðskjálftar hafa mælst undanfarið á La Palma. Sá stærsti sem mælst hefur var 3,8 á Richter-skala. Talið er að skjálftarnir muni ýta undir slíkt hrun.

Frétt El País er hér.