Fleiri hundategundum verður bætt á bannlista þeirra tegunda sem óheimilt er nú þegar að flytja til landsins samkvæmt drögum að breyttri reglugerð um innflutning hunda og katta. Bæta á við banni á tegundunum Cane Corso, Presa Canario og Boerboel.

Opið er fyrir umsagnir um breytingarnar á samráðsvef stjórnvalda.

Tík af tegundinni Cane Corso. Hundarnir geta orðið 70 sentímetra háir og 50 kíló á þyngd.
Mynd/Wikimedia Commons

Breytingarnar sem lagðar eru til á núgildandi reglugerð snýst um að skýra betur tegundaheiti hunda eða blendinga sem fólk hyggst flytja til landsins. Óheimilt er nú að flytja inn hunda af tegundunum „Pit Bull Terrier“ eða „Staffordshire Bull Terrier“. Lagt er til að bætt verði við heitunum „American Staffordshire Terrier“ og „American Bulldog“. Ástæðan fyrir því sé sú að tegundirnar „Pit Bull Terrier“, „American Staffordshire Terrier“, „Staffordshire Bull Terrier“ og „American Bulldog“ teljast sem sama tegund en einungis sé um að ræða mismunandi afbrigði.

Boerboel er bannaður í ýmsum löndum. Lagt er til innflutningsbann hérlendis. Hundurinn getur orðið nærri 100 kíló og 70 sentímetra að hæð.
Mynd/Wikimedia Commons

Nýjar tegundir í innflutningsbann

Bæta á við banni á Cane Corso, Presa Canario og Boerboel og hundum með sambærilegan uppruna, líkamsbyggingu og geðslag og allar fyrrgreindar óleyfilegar hundategundir.

Mikilvægt er að ekki leiki vafi á því að bannið taki til allra þessara tegunda þar sem hætta geti stafað af þeim, segir í drögunum.

Framandi tegundir

Nú þegar er bann við innflutningi hunda og blendinga af ýmsum tegundum. Um er að ræða tegundir sem bera framandi nöfn eða Dogo Argentino, Toso Inu og Fila Brasileiro. Einnig nú þegar bannað að flytja inn blendinga af úlfum og hundum í að minnsta kosti 10 ættliði.

Reglugerðin sem um ræði er sett með stoð í lögum um innflutning dýra, dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og lögum um velferð dýra.