Tæplega 43% Íslendinga segjast vera hlynntir því að mannanafnanefnd verði lögð niður en um 30% andvígir. Þá eru rúmlega 27% svarenda í meðallagi hlynntir eða andvígir slíkri breytingu, samkvæmt könnun Maskínu.

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra lagði í október fram frumvarp á Alþingi til breytinga á mannanafnalögum sem felur í sér að nefndin verði lögð niður.

Samkvæmt niðurstöðu Maskínu er meirihluti kjósenda Miðflokksins og Framsóknar andvígur áformum ráðherrans. Á sama tíma sagðist meirihluti kjósenda Flokks fólksins, Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata vera hlynntir slíkri breytingu.

Meðal kjósenda Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna skiptust svörin nokkuð jafnt og voru um það bil jafnmargir hlynntir og andvígir.

Yngri svarendur voru líklegri til að vera hlynntir því að nefndin yrði lögð niður. Um helmingur svarenda undir fertugu var hlynntur slíku, á aldursbilinu 40-59 ára voru fleiri hlynntir en andvígir og í hópnum 60 ára og eldri voru fleiri andvígir.

Heildarniðurstöður könnunarinnar.
Mynd/Maskína

Þá eru konur (44,1%) aðeins líklegri til að vera hlynntar því að leggja niður mannanafnanefnd en karlar (41,7%).

Greint er frá niðurstöðunum á vef Maskínu en svarendur voru 838 talsins, 18 ára og eldri og komu úr Þjóðgátt Maskínu. Könnunin fór fram á netinu dagana 19. til 27. október síðastliðinn.