„Við erum að taka og veita hæli mörg hundruð manns hæli hér á þessum forsendum, þrátt fyrir þessa reglu og vegna þessara miklu vinnu sem fram fer, er þá hvert mál skoðað alveg ofan í kjölinn. Ég þori alveg að fullyrða það að í þessu hælisleitendakerfi hafi fleiri fengið hæli en tilefni hefur verið til. Hefur þeim verið leyft að njóta vafans,“ sagði Sigríður Andersen, þingkona Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, í Silfrinuí dag. Ræddi hún þar sem málefni innflytjenda, flóttamanna og hælisleitenda ásamt Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingkonu sem sagði sig úr Vinstri grænum í vikunni vegna máls egypsku fjölskyldunnar.

Sigríður sagði það æskilegt að Ísland taki einungis við flóttamönnum, þar sem búið er að meta aðstæður fólksins áður en það kemur til landsins, í stað hælisleitenda þar sem það fellur í hlut íslenskra stjórnvalda að meta hvert og eitt tilfelli. „Þá erum við að taka að okkur að fara yfir forsendur þessa fólks alveg frá upphafi en ekki flóttamannastofnanir erlendis,“ sagði Sigríður. Mál hælisleitenda taki mikla orku og því sé hætta að flóttafólk fái lakari þjónustu.

Rósa Björk sagði að móttaka flóttamanna sé aðeins einn hluti af stærri mynd. Nefndi hún stríðið í Sýrlandi og aðstæður í flóttamannabúðum á Grikklandi. „Ísland hefur eitt Norðurlanda ekki stigið fram og tilkynnt um það að við ætlum að taka á móti fylgdarlausum börnum, fötluðum börnum, fólki sem er í verstu aðstæðunum þrátt fyrir ákall grískra stjórnvalda. Þetta ákall byrjaði í vor,“ sagði Rósa Björk.

Varðandi egypsku fjölskylduna segir Rósa Björk það hverfast um hvernig Ísland ætli að halda utan um börn. Dæmi séu um að börn fæðist hér á landi, gangi í skóla, mynda rætur og tali íslensku. „Ætlum við að hafa það þannig að við víkjum barnafjölskyldum af landi brott þrátt fyrir allt þetta? Hörðustu viðbrögð almennings eru akkúrat í þeim tilvikum sem snerta börn og barnafjölskyldur,“ sagði Rósa Björk. „Árið 2020 á það ekki að vera þannig á Íslandi að fjölskylda með fjögur börn, niður í tveggja ára gamalt barn, er í felum.“

Varðandi tímarammann sagði Sigríður það ekki skipta sérstöku máli hvort málsmeðferðartíminn sé 17 mánuðir eða tvö ár eða lengur. „Gallinn við slíkar reglur er sá að þá er það orðið sjálfstætt markmið hjá fólki að dvelja hérna, koma sér undan því að svara þeim spurningum sem að þeim eru beindar. Leggja fram þau gögn sem nauðsynlegt er. Jafnvel fara í felur til þess að draga þennan tíma.“

Þessu mótmælti Rósa Björk. „Ég held að þetta sé ekki af yfirlögðu ráði hjá fólki sem er á flótta með börnin sín.“

Sigríður bætti þá við: „Það eru dæmi um það hér á landi, mörg dæmi, þar sem menn reyna ýmislegt til þess að fara fram hjá reglunum, til þess að uppfylla skilyrðin til að fá hæli.“

Rósa Björk spurði þá hvers vegna fólk væri þá að koma hingað.

„Sumt fólk er að leita að betra lífi, að sjálfsögðu,“ sagði Sigríður. „Menn hafa misríkar ástæður til þess að vera á flótta.“ Virðingarvert sé að leita til annars lands til að búa sér til betra líf. „Það breytir því ekki, að ekkert land getur tekið á móti öllu fólki sem hafa slíkar ástæður.“