„Í umræðunni er sósíalisminn stimplaður sem jaðarskoðun, öfgakenndar og byltingakenndar, þegar við erum í raun að tala fyrir hugmyndum sem njóta meiri stuðnings meðal almennings en kapítalisminn sjálfur,“ segir Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands, í samtali við Fréttablaðið.
Flokkurinn stóð fyrir könnun sem MMR gerði, í niðurstöðunum kemur í ljós að landsmenn eru jákvæðari gagnvart sósíalisma en kapítalisma. Það munar þó ekki miklu. 31 prósent segjast vera mjög eða frekar jákvæð gagnvart sósíalisma en 29 prósent segjast vera mjög eða frekar jákvæð gagnvart kapítalisma.
Það er áberandi munur eftir kynjum. Þegar svörunum er skipt eftir kynjum kemur í ljós að 37 prósent karla eru jákvæðir gagnvart kapítalisma en aðeins 18 prósent kvenna. 41 prósent kvenna er hins vegar jákvæða gagnvart sósíalisma en aðeins 24 prósent karla.
Karlar skiptast nokkur jafnt í afstöðu sinni til kapítalisma, 37 prósent eru jákvæðir og 36 prósent eru neikvæðir. Aðeins 18 prósent kvenna eru jákvæð gagnvart kapítalisma en 51 prósent neikvæð. Þá eru 24 prósent karla eru jákvæðir gagnvart sósíalisma en 49 prósent neikvæðir á meðan 41 prósent kvenna eru jákvæðar en 28 prósent neikvæðar. Könnunin var gerð 8. til 14. júlí, 945 einstaklingar svöruðu.
Flokkaðir sem jaðarmenn
Gunnar Smári segir að tilgangur könnunarinnar sé að sýna fram á að sósíalismi sé engin jaðarskoðun í samfélaginu. „Þetta hefur líka komið fram í Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem Jeremy Corbyn og Bernie Sanders voru flokkaðir í allri almennri umræðu sem jaðarmenn sem væru að trufla umræðuna, en þegar farið var að kanna afstöðu almennings til stefnumála þeirra kom í ljós að þeir voru að leggja fram stefnu sem naut stuðnings meirihluta þjóðarinnar,“ segir hann. „Þetta er vandamál þar sem auðnum fylgir mikil völd.“
Athygli vekur að þegar litið er til stétta og menntunar eru það frekar sérfræðingar og háskólamenntaðir sem eru jákvæðir í garð sósíalisma og neikvæðir í garð kapítalisma. „Sósíalisminn er að glíma við áratugalangan áróður þar sem verið að fullyrða að hann sé eitthvað allt annað en hann er. Þegar spurt er um sósíalisma þá svarar einhver „Stalín“, „Venesúela“ eða „hungursneyð“. Þessi áróður, sem hefur verið notaður til að halda niðri sósíalískri baráttu, virkar síst hjá þeim sem eru best að sér um stjórnmál. Áróðurinn hefur virkað betur á fólk með lægri tekjur og minni menntun.“
Hinir vinstriflokkar þurfa að líta í eigin barm
Einnig var spurt um afstöðu fólks til „nýfrjálshyggju“, þar voru 13 prósent frekar eða mjög jákvæðir en 52 prósent frekar eða mjög neikvæðir. „Nýfrjálshyggjan er samfélagssáttmálinn í dag en ég held að þú finnir fleiri sem eru fylgjandi dauðarefsingum en nýfrjálshyggju. Þetta er svo mikil jaðarskoðun að það er kostulegt að stjórnmálastefna núverandi ríkisstjórnar njóti svona mikillar andstöðu meðal þjóðarinnar,“ segir Gunnar Smári.
Samkvæmt nýrri könnun MMR fyrir Morgunblaðið mælist Sósíalistaflokkurinn með 5,6 prósent fylgi og þrjá þingmenn.
Gunnar Smári segir að könnunin um sósíalisma sendi skilaboð til hinna flokkanna á vinstri vængnum, þá helst Vinstri grænum og Samfylkingunni, að þeir ættu að setja sósíalismann frekar á oddinn. „Þegar þú hlustar á forystu Samfylkingarinnar tala þá fara þeir beint í að verja kapítalismann, en kjósendurnir þeirra hafa miklu jákvæðari skoðanir gagnvart sósíalisma en kapítalisma. Ég vona að Samfylkingin og VG skoði afstöðu sinna kjósendahópa og spyrji sig hvort þeir þurfi ekki að svara þeim.“