Flugferðir til og frá Íslandi í sumar voru fleiri en á sama tíma fyrir faraldurinn. Þetta kemur fram hjá Eurocontrol, flugumferðarstofnun Evrópu.

Mestur viðsnúningurinn var í apríl. Í mars voru flugferðirnar 28 prósentum færri en í marsmánuði árið 2019. Í apríl voru ferðirnar hins vegar 9,7 prósentum fleiri en í apríl 2019. Þetta er viðsnúningur upp á 37,7 prósent. Allir mánuðir síðan hafa verið yfir árinu 2019, til að mynda 2,5 prósent í ágúst.

Aðeins tvö önnur lönd Evrópusambandsins og EFTA hafa náð að endurheimta flugtraffíkina eins og Ísland. Það eru Grikkland og Lúxemborg.

Í ágúst voru flugferðir í álfunni 14 prósentum færri en í sama mánuði árið 2019. Mesta fækkunin var í Slóveníu, 42 prósent. Spánn fór niður um 7 prósent, Frakkland um 11, Danmörk um 15, Þýskaland um 20 og Svíþjóð um 23 prósent.