Margt bendir til þess að breytingar á fæðingarorlofslöggjöf síðustu þrjú ár hafi orðið til þess að fleiri feður nýti fæðingarorlofið sitt.

Í fjáraukalagafrumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra sem lagt var fram í gær er tillaga um að auka fjárheimild til Fæðingarorlofssjóðs um 940 milljónir króna, eða nærri einn milljarð, vegna þess að greiðslur úr sjóðnum muni fara talsvert fram úr þeirri fjárheimild sem sett var fram í fjárlögum ársins 2021.

Í frumvarpinu eru ástæðurnar sagðar þríþættar. Í fyrsta lagi eru útgjöld vegna fæðingarárs 2019 meiri en gert var ráð fyrir sem stafar af því að hærra hlutfall feðra tekur orlof á síðari hluta orlofstímabilsins en raunin hefur verið fæðingarárin á undan.

Í öðru lagi taka 6.832 feður fleiri orlofsdaga á fyrstu þremur til sex mánuðum vegna barna sem fædd eru 2020 og 2021, en orlofið var lengt um einn mánuð árið 2020 og tvo mánuði 2021. Í þriðja lagi stefnir í að fæðingarárið 2021 verði hið stærsta síðan 2010 hvað varðar fjölda fæðinga.

Þrennt sem skipti sköpum

„Það er búið að vera heilmikil aukning og aukið álag á þessu ári. Kannski eitthvað umfram það sem væntingar stóðu til en það eru jákvæð teikn sem eru að eiga sér stað. Ég veit ekki hvað maður má leyfa sér að vona um áhrif nýju lagasetningarinnar en það eru vísbendingar sem gefa til kynna að þetta sé að takast nokkuð vel,“ segir Leó Þorleifsson, forsstöðumaður Fæðingarorlofssjóðs.

Hann segir að um sé að ræða þrjú stór skref sem eigi þátt í þessum breytingum en fyrsta var tekið um áramótin 2019 þegar hámarksgreiðslur hækkuðu í 600 þúsund, svo um áramótin 2020 lengdist fæðingarorlofið í tíu mánuði og svo var síðasta skrefið tekið síðustu áramót þegar fæðingarorlofið var lengt í tólf mánuði og skipt jafnt á milli beggja foreldra, þó með leyfi til að framselja sex vikum til maka eða hins foreldris.

„Við sáum strax fjölgun árið 2019 meðal feðra og að þeir tóku meira af orlofinu sínu. Svo árið 2020 leiddi breyting til þess að feður áttu fjóra mánuði í stað þriggja, sem voru óframseljanlegir, og hefðin er sú að feður taki stærstan hluta af þeim rétti sem þeir eiga sem er óframseljanlegur,“ segir Leó og telur að það skipti miklu máli hversu stór hluti orlofsins sé óframseljanlegur.

Hann segir að stór hluti feðra framselji þær sex vikur sem þeir megi framselja en að þeir taki það sem þeir eiga eftir, sem er fjórir og hálfur mánuður.

„Þeir virðast líka vera að koma fyrr inn núna, bæði 2020 og 2021. Kannski vegna þess að rétturinn er meiri en kannski vegna þess að það var mjög jákvæð umræða í gangi,“ segir Leó og á þá við umræðu sem fylgdi breytingunni á lögum.

Leó segir að hefðin hafi verið sú að þeir tóku fjórar til sex vikur í upphafi og komu svo síðar aftur inn en að núna séu þeir að koma fyrr inn og vera lengur.

Samkvæmt upplýsingum frá Huldu Hjartardóttur, yfirlækni fæðingarþjónustu á Landspítalanum, munu fæðingar á þessu ári verða um 4.600 en samkvæmt Fæðingarskrá hafa þær ekki verið fleiri frá árinu 2010 þegar þær voru 4.834.

„Það er margt sem leggst saman í þessu,“ segir Leó.

Þetta hlýtur að vera gleðilegt, að sjá þessar breytingar?

„Já, fyrstu vísbendingar eru allavega í þá áttina að fæðingarorlofstaka feðra sé að aukast og það sé betri nýting. Þetta er gott skref í jafnréttisátt og mjög gott fyrir börnin,“ segir Leó.

Covid gæti haft áhrif

Hann segir að líklega hafi heimsfaraldurinn haft einhver á þessa fjölgun. Það geti verið að einhverjir hafi misst vinnuna og ákveðið að nýta orlof sem þeir áttu eftir.

„Það er ekki hægt að útiloka það og líklega er það einhver hluti útskýringarinnar. En ég held að stærstur hluti skýrist af hækkun hámarksgreiðslnanna og svo hversu stór hluti er bundinn við þá og þeir geta ekki framselt,“ segir Leó.

Spurður hver séu næstu skrefin í þessum málum segir Leó það mikilvægt að hámarksgreiðslurnar haldi áfram að hækka í samræmi við launaþróun.

„Næsta stóra skref kerfisins í heild er að skoða hvernig er hægt að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Að ná að loka því gati.“