Dauðs­föllum af völdum kóróna­veirunnar fjölgar ört á Spáni en í dag var til­kynnt um 832 and­lát af völdum veirunnar á síðasta sólar­hring.


Alls hafa nú 5.690 látist úr CO­VID-19 á Spáni og 72.248 greinst með veiruna. Hvergi hafa fleiri látist ú sjúk­dóminum nema á Ítalíu þar sem 9.134 höfðu látist í gær.


Neyðar­á­standi hefur verið lýst yfir í landinu og á það að minnsta kosti að gilda til 12. apríl. Flestum búðum og vinnu­stöðum þar hefur verið lokað og hafa verið settar strangar tak­markanir á ferðir fólks.


Spænskir her­menn hafa verið settir í það verk að sótt­hreinsa alla spítala í landinu og aðrar heil­brigðis­stofnanir. Mikið álag hefur verið á þessum stofnunum á Spáni líkt og víða í heiminum og hefur heil­brigðis­starfs­fólk kvartað yfir skorti á góðum hlífðar­búnaði í far­aldrinum.