Andrew Cu­omo, ríkis­stjóri New York-ríkis, hefur sætt mikilli gagn­rýni síðast­liðnar vikur vegna við­bragða hans við kóróna­veirufar­aldrinum en greint var frá því í lok janúar að skráð dauðs­föll á hjúkrunar­heimilum væru ekki í sam­ræmi við raun­veru­legan fjölda látinna. Þá hefur Cuomo verið sakaður um að taka við peningagreiðslum frá heilbrigðisstofnunum vegna málsins.

Nú hafa fleiri á­sakanir gegn Cu­omo litið dagsins ljós en hann hefur meðal annars verið sakaður um ein­elti í garð Ron Kim, með­lim lög­gjafar­þingsins í New York, en Kim segir Cu­omo hafa hótað því að binda endi á feril hans eftir að Kim gagn­rýndi við­brögð Cu­omo við and­látum á hjúkrunar­heimilum.

Þá hefur Cu­omo einnig verið sakaður um kyn­ferðis­lega á­reitni gegn Linds­ey Boy­lan, fyrrum að­stoðar­konu Cu­omo, en þær á­sakanir komu fyrst upp í fyrra. Cu­omo hefur al­farið neitað á­sökununum.

Boy­lan birti á dögunum grein um málið en hún sagði Cu­omo hafa kysst sig á varirnar, snert sig á ó­við­eig­andi hátt, og beðið hana um að spila fatapóker um borð einka­flug­vélar hans, meðan hún starfaði fyrir hann. Tals­maður Cu­omo sagði í gær að á­sakanirnar væru „ein­fald­lega ó­sannar.“

Borgarstjóri New York borgar, Bill De Blasio, er meðal þeirra sem hefur kallað eftir því að ásakanir Boylan verði rannsakaðar.

FBI með mál hjúkrunarheimilanna til rannsóknar

Fjöl­margir hafa kallað eftir því að Cu­omo segi af sér en hann hefur verið ríkis­stjóri í rúman ára­tug. Þar til að upp­lýsingarnar um hjúkrunar­heimilin komu upp var litið á hann sem á­kveðna hetju í ríkinu þar sem hann var ekki að sykur­húða stöðuna í CO­VID en mörgum hefur nú snúist hugur.

Al­ríkis­lög­regla Banda­ríkjanna, FBI, er nú með mál hjúkrunar­heimilanna til rann­sóknar en þar til í síðasta mánuði voru rúm­lega 8.500 dauðs­föll skráð á hjúkrunar­heimilum. Raunin er aftur á móti sú að rúm­lega 15 þúsund í­búar heimilanna hafa látist frá upp­hafi far­aldursins sam­kvæmt skýrslu ríkis­sak­sóknara.

Cu­omo viður­kenndi í kjöl­farið að „töf“ hafi orðið á upp­lýsingum um and­látin en að heildar­tala látinna hafi alltaf verið rétt. Engu að síður hefur hann verið gagnrýndur af bæði Repúblikönum og Demókrötum sem krefjast þess nú að vald Cuomo til að beita neyðaraðgerðum verði tekið af honum.