Tæpur helmingur þeirra sem taka afstöðu er andvígur því að þriðji orkupakkinn verði samþykktur á Alþingi. Þetta eru niðurstöður könnunar sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið og fréttablaðið.is.

48,7 prósent þeirra sem tóku afstöðu eru andvíg samþykkt þriðja orkupakkans, 29,6 prósent eru hlynnt og 21,7 prósent hlutlaus. Þetta eru svipaðar niðurstöður og úr könnun Zenter frá desember á síðasta ári.

Ef svör allra eru skoðuð kemur í ljós að stærsti hópurinn, eða 36,3 prósent, segist ekki vita hvort hann sé hlynntur eða andvígur þriðja orkupakkanum. Af öllum svörum reyndust 30,5 prósent andvíg samþykkt orkupakkans, 18,5 prósent hlynnt, 13,6 prósent hlutlaus og rúmt eitt prósent vildi ekki svara.

graf af for.jpg

Einnig var spurt að því hversu vel eða illa fólk hefði kynnt sér þriðja orkupakkann. Tæpur þriðjungur, eða 32,1 prósent, sagðist ekki hafa kynnt sér hann, og 26,5 prósent sögðust hafa kynnt sér hann illa. 22,2 prósent töldu sig hafa kynnt sér orkupakkann vel og 19,2 prósent hvorki vel né illa.

Stuðningur við samþykkt þriðja orkupakkans eykst eftir því sem fólk hefur kynnt sér málið betur. Þannig segjast 46 prósent þeirra sem hafa kynnt sér málið vel hlynnt samþykkt, 26 prósent þeirra sem hvorki hafa kynnt sér málið vel né illa, 19 prósent þeirra sem hafa kynnt sér það illa og 12 prósent þeirra sem ekki hafa kynnt sér málið.

Helmingur þeirra sem hafa kynnt sér málið vel og þeirra sem hafa hvorki kynnt sér það vel né illa er andvígur samþykkt þriðja orkupakkans. Þá eru 46 prósent þeirra sem hafa kynnt sér málið illa og 45 prósent þeirra sem ekki hafa kynnt sér það andvíg samþykkt þess.

Könnun Zenter var netkönnun framkvæmd 24. apríl til 2. maí. Úrtakið var 2.500 manns en alls svöruðu 1.443, eða 57,7 prósent.

Þriðji orkupakkinn var áfram til umræðu í utanríkismálanefnd í gær en Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögmaður komu á fund nefndarinnar.

„Það er gert ráð fyrir því að reglugerðin öðlist ekki gildi fyrr en að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá liggur það í hlutarins eðli að lögin eru raunverulega ekki í gildi,“ sagði Stefán Már Stefánsson lagaprófessor á fundi utanríkismálanefndar.

Þeir Stefán Már og Friðrik Árni hafa skrifað álitsgerðir um málið sem ítrekað hefur verið vitnað í á þingi, bæði af stuðningsmönnum og andstæðingum þriðja orkupakkans. Þeir sögðu tvær leiðir í boði, annars vegar að hafna þriðja orkupakkanum og vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Hins vegar að samþykkja þingsályktunartillögu ráðherra á þeirri forsendu að Ísland sé ekki tengt raforkumarkaði ESB með sæstreng.

Þeir telja leiðina sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ætlar að fara í málinu ekki gallalausa. „Við göngum út frá því að forsendur ráðherra séu réttar og við höfum ekki kynnt okkur hvernig fyrirvararnir verða útfærðir á síðari stigum, það er eftirleikurinn, hvernig þingið kemur til með að útfæra þessa fyrirvara,“ segir Friðrik Árni. „En þessir fyrirvarar eru ekki lögformlegir og eru ekki jafngildir þess að fá undanþágu frá sameiginlegu EES nefndinni.“

Stefán Már gat ekki sagt hvað myndi gerast ef málið yrði sent aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það væri hins vegar rétta lögfræðilega leiðin, þar sem gert væri ráð fyrir því í EES-samningnum. Ekki væri hægt að útiloka að ESB myndi grípa til einhverra gagnaðgerða og alls óvíst hvort Ísland fengi varanlega undanþágu. Varðandi sæstreng tók Stefán Már það skýrt fram að það væri hans mat að ráðstöfun orku væri ávallt á forræði einstakra ríkja.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fulltrúi Miðflokksins í nefndinni, sagði eftir fundinn að huga þyrfti að pólitískum raunveruleika. „Fyrirvarar í öðrum málum hafa ekki haldið vegna þess að þeir samræmast ekki markmiðum ESB. Ég tel að það eigi ekki síður við í orkumálunum sem er forgangsatriði í samrunaþróun ESB og að öll túlkun þar verði okkur í óhag,“ segir Sigmundur Davíð. „Það er mikið hættuspil að fara í eitthvað bix og ætla að innleiða eitthvað en um leið að reyna að loka það inni. Það einfaldasta í þessu málið er að vísa því aftur til EES-nefndarinnar og leysa þetta þar.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fulltrúi Viðreisnar, er á öndverðu máli og segir kosti þriðja orkupakkans ótvíræða. „Þetta er mikilvægt fyrir neytendur, eykur gegnsæi og aðhald á stjórnvöld. Ef menn ætla að hleypa EES-samningnum í uppnám vegna þriðja orkupakkans er það háalvarlegt mál. Mér finnst leitt að sjá stjórnmálamenn nota þetta mál til að veikja stoðir EES-samningsins,“ segir Þorgerður Katrín. Segir hún að því dýpra sem farið er í málið er hún sannfærðari um að stjórnvöld haldi vel á spilunum, andstaðan við orkupakkann sé í raun og veru andstaða við veru Íslands í EES.

Stefán Már og Friðrik Árni taka ekki beina afstöðu til þess hvor leiðin sé betri. „Þetta er bara spurning um hvora leiðina menn ætla sér að fara. Það er bara pólitískt mat,“ segir Friðrik Árni. Hann viðurkennir að málið sé mjög flókið, en það sé erfitt að einfalda það. „Inn í þetta blandast bæði lögfræði og lögfræði sem getur verið loðin á köflum.“