Fleiri eru andvíg frjálsum innflutningi á landbúnaðarvörum en hlynnt, samkvæmt nýrri könnun sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið. Ríflega 21 prósent tók ekki afstöðu eða vildi ekki svara, 27 prósent sögðust hlynnt frjálsum innflutningi en 41 prósent ekki. Ef aðeins eru tekin svör þeirra sem tóku afstöðu eru 47 prósent hlynnt en 53 prósent andvíg.

Afstaða landsmanna hefur lítið breyst frá því að Fréttablaðið kannaði afstöðu landsmanna til efnisins árið 2014, þegar 53 prósent voru hlynnt frjálsum innflutningi en 47 prósent andvíg. Þótt fleiri segist nú ekki hlynnt frjálsum innflutningi er munurinn ekki mikill.

Eins og árið 2014 eru karlmenn hlynntari frjálsum innflutningi en konur og yngra fólk er hlynntara frjálsum innflutningi en það eldra. Þá er fólk á höfuðborgarsvæðinu jákvæðara gagnvart innflutningi en fólk af landsbyggðinni.

Innflutningur á landbúnaðarvörum hefur aukist talsvert síðastliðin ár.
Mynd/Fréttablaðið

Um netkönnun var að ræða sem framkvæmd var dagana 22. júní til 4. júlí. Úrtakið var 2.000 einstaklingar 18 ára og eldri. Svarhlutfallið var 50,8 prósent.

Innflutningur á landbúnaðarvörum hefur aukist talsvert undanfarin ár. Að sögn Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, skýrist aukningin annars vegar af samningi við Evrópusambandið um stækkun á tollfrjálsum innflutningskvótum árið 2015, sem er að öllu leyti komin til framkvæmda. Hins vegar anni innlend framleiðsla ekki eftirspurn hér á landi og því sé þörf á innflutningi. „Enn sem komið er er þó ekkert til sem heitir frjáls innflutningur á landbúnaðarvörum,“ segir Ólafur.

Hann segir það tilhneigingu í flestum ríkjum, þegar gefi á bátinn, að fólk vilji helst treysta á innlenda framleiðslu. Hér á landi gleymist hins vegar oft að aðgengi framleiðenda að aðföngum tryggi matvælaöryggið, eins og niðurstöður spretthóps matvælaráðherra sýni. „Þannig að þetta hangir algerlega saman,“ segir Ólafur.