Fleiri Íslendingar eru ánægðir en óánægðir með nýtt útlit Bónusgríssins. Flestir eru þó þeirrar skoðunar að vera hvorki ánægðir né óánægðir með breytingarnar.

Samkvæmt nýrri könnun Prósents sem framkvæmd var dagana 12. til 19. nóvember síðastliðinn sögðust 29 prósent svarenda vera ánægðir með breytingarnar.

Hátt í helmingur svarenda eða, 49 prósent, sögðust hvorki ánægðir né óánægðir með breytinguna og 22 prósent voru ánægðir.

Niðurstaðan leiddi í ljós að karlmenn eru marktækt neikvæðari gagnvart breytingunni en konur.

Í heildina voru 34 prósent kvenna ánægðar með breytinguna en aðeins 24 prósent karla.

Spurningin var hversu ánægð/ur eða óánægð/ur ertu með breytingarnar á útlitinu á Bónusgrísnum.
Mynd/Aðsend

Bónus kynnti nýjan grís, eða nýtt logo, fyrr í mánuðinum og vakti hann strax mikla athygli á samfélagsmiðlum.

Viðbrögðin voru nokkuð misjöfn en flestir virtust frekar óánægðir með breytinguna.

Þá sagði Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, í samtali við Fréttablaðið í kjölfar breytinganna að útlitsbreyting gríssins hafa verið orðna tímabæra, en erfiða.

Breytingin væri partur af stafrænni vegferð verslunarinnar.