Lisa Mari­e Presl­ey, söng­konan og einka­barn rokk­kóngsins Elvis Presl­ey, lést í gær eftir að hafa verið lögð inn á sjúkra­hús í Kali­forníu. Hún var 54 ára að aldri og hafa fjöl­margir að­dá­endur hennar og vinir minnst hennar á sam­fé­lags­miðlum.

Árið 1975 keypti faðir hennar Con­vair 880 flug­vél af flug­fé­laginu Delta Air­lines til einka­nota og nefndi hana í höfuðið á dóttur sinni. Rokk­kóngurinn greiddi 250 þúsund Banda­ríkja­dali fyrir flug­vélina Lísu Mari­e og var hún inn­réttuð með svefn­her­bergi, gull­húðuðu bað­her­bergi og 52 há­tölurum.

Einkaþota söngvarans situr nú á Elvis-safni í borginni Memphis í Bandaríkjunum.
EPA

Söngvarinn frægi var þekktur fyrir mikla matar­lyst og var sér­stak­lega hrifinn af hinum sí­gilda banda­ríska þjóðar­rétti, sam­loka með hnetu­smjöri og sultu.

Kvöld eitt árið 1976 var Elvis staddur á heimili sínu í Graceland í borginni Memp­his með tveimur lög­reglu­mönnum frá Den­ver í Col­or­ado-fylki. Lög­reglu­mennirnir unnu sem líf­verðir fyrir söng­varann og byrjuðu mennirnir þrír að spjalla um eftir­lætis veitinga­stað þeirra í Den­ver, Col­or­ado Mine Company.

Veitinga­staðurinn bauð upp á 8.000 kal­oría sam­loku sem saman­stóð af heilu frans­brauði. Annar endirinn var skorinn af, brauðið sjálft tekið innan úr og fyllt upp með hnetu­smjöri, jarðar­berja­sultu og 500 grömm af beikoni.

Samlokan samanstendur af hnetusmjöri, jarðarberjasultu og 500 grömm af beikoni.
Samsett mynd.

Þar sem Elvis hafði að­gang að einka­þotu stakk hann upp á því að þeir fé­lagarnir myndu fljúga til Den­ver um miðja nótt til að gæða sér á sam­lokunni.

Klukkan 01:40 var flug­vélin Lisa Mari­e lent á flug­vellinum í Den­ver þar sem starfs­menn veitinga­staðarins biðu inn í flug­skýli með 22 sam­lokur. Elvis og fylgdar­lið hans sátu síðan í þrjá klukku­tíma inn í flug­skýlinu snæðandi sam­lokur og drekkandi kampa­vín. Hann bauð einnig flug­mönnunum og starfs­mönnum veitinga­staðarins að borða með þeim og þegar þeir voru búnir flugu þeir aftur til Memp­his án þess að hafa yfir­gefið flug­völlinn.