Lisa Marie Presley, söngkonan og einkabarn rokkkóngsins Elvis Presley, lést í gær eftir að hafa verið lögð inn á sjúkrahús í Kaliforníu. Hún var 54 ára að aldri og hafa fjölmargir aðdáendur hennar og vinir minnst hennar á samfélagsmiðlum.
Árið 1975 keypti faðir hennar Convair 880 flugvél af flugfélaginu Delta Airlines til einkanota og nefndi hana í höfuðið á dóttur sinni. Rokkkóngurinn greiddi 250 þúsund Bandaríkjadali fyrir flugvélina Lísu Marie og var hún innréttuð með svefnherbergi, gullhúðuðu baðherbergi og 52 hátölurum.

Söngvarinn frægi var þekktur fyrir mikla matarlyst og var sérstaklega hrifinn af hinum sígilda bandaríska þjóðarrétti, samloka með hnetusmjöri og sultu.
Kvöld eitt árið 1976 var Elvis staddur á heimili sínu í Graceland í borginni Memphis með tveimur lögreglumönnum frá Denver í Colorado-fylki. Lögreglumennirnir unnu sem lífverðir fyrir söngvarann og byrjuðu mennirnir þrír að spjalla um eftirlætis veitingastað þeirra í Denver, Colorado Mine Company.
Veitingastaðurinn bauð upp á 8.000 kaloría samloku sem samanstóð af heilu fransbrauði. Annar endirinn var skorinn af, brauðið sjálft tekið innan úr og fyllt upp með hnetusmjöri, jarðarberjasultu og 500 grömm af beikoni.

Þar sem Elvis hafði aðgang að einkaþotu stakk hann upp á því að þeir félagarnir myndu fljúga til Denver um miðja nótt til að gæða sér á samlokunni.
Klukkan 01:40 var flugvélin Lisa Marie lent á flugvellinum í Denver þar sem starfsmenn veitingastaðarins biðu inn í flugskýli með 22 samlokur. Elvis og fylgdarlið hans sátu síðan í þrjá klukkutíma inn í flugskýlinu snæðandi samlokur og drekkandi kampavín. Hann bauð einnig flugmönnunum og starfsmönnum veitingastaðarins að borða með þeim og þegar þeir voru búnir flugu þeir aftur til Memphis án þess að hafa yfirgefið flugvöllinn.