Karlmaður á fimmtugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald, eða til 16. júní, að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Maðurinn var handtekinn á íþróttasvæði í austurborginni síðdegis í gær eftir að tilkynning barst um mann sem þar væri að bera sig fyrir framan börn. Viðkomandi hefur ítrekað komið við sögu hjá lögreglu vegna blygðunarsemisbrota gagnvart börnum og fullorðnum á sama svæði síðustu vikur og mánuði.
Samkvæmt lögreglu unir maðurinn úrskurðinum.
Fréttablaðið greindi frá því í dag að karlmaður var handtekinn í Laugardalnum í gærkvöldi eftir að hafa berað sig.
Nýlega hefur verið rætt um flassarann í Laugardalnum í fjölmiðlum en hann beraði sig fyrir framan stúlkur á æfingu síðastliðinn mánudag. Hann hefur gerst sekur og verið handtekinn fyrir slíka háttsemi nokkrum sinnum áður og er orðinn þekktur á svæðinu. Ein móðir í Laugardalnum hyggst kæra hann formlega til lögreglunnar.
„Við óttumst öryggi barna okkar. Við getum ekki leyft börnunum að vera ein úti vegna þessa manns,“ sagði íbúi við Laugardal í samtali við Fréttablaðið í vikunni.
Áhyggjufullir foreldrar í Laugardalnum hafa undanfarin ár þurft að óttast það að maðurinn áreiti börnin þeirra og sýni þeim kynfærin á sér. Málið hefur vakið óhug hjá mörgum og eru foreldrar komnir með nóg.
„Þetta er búið að vera viðvarandi í svo langan tíma, við vitum ekki lengur hvað við eigum að gera,“ segir hún.