Karl­maður var hand­tekinn í Laugar­dalnum í gær­kvöldi eftir að hafa berað sig. Sam­kvæmt dag­bók lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu var við­komandi í mjög slæmu á­standi sökum ölvunar og vímu­á­stands og ekki var því hægt að ræða við hann á vett­vangi.

Maðurinn er í haldi lög­reglu og segir að reynt verður að ræða við hann í dag ef af honum verður runnið. Að yfir­heyrslu lokinni verði svo kannað hvort þurfi að beita frekari þvingunar­úr­ræðum vegna hátt­semi mannsins.

Ný­lega hefur verið rætt um flassarann í Laugar­dalnum í fjöl­miðlum en hann beraði sig fyrir framan stúlkur á æfingu síðast­liðinn mánu­dag. Hann hefur gerst sekur og verið hand­tekinn fyrir slíka hátt­semi nokkrum sinnum áður og er orðinn þekktur á svæðinu. Ein móðir í Laugar­dalnum hyggst kæra hann form­lega til lög­reglunnar.

Þjófnaður og umferðarlagabrot

Nokkuð var af inn­brotum og þjófnuðum í gær­kvöldi. Rétt undir morgun, klukkan hálf sex, barst til­kynning um inn­brot í fyrir­tæki í Hálsa­hverfinu í Reykja­vík þar sem bif­reið var stolið og skemmdir unnar á hús­næðinu. Einnig var til­kynnt um skemmdar­verk á bíl í bíla­stæða­húsi í mið­borginni en öryggis­mynda­vélar voru þar á vett­vangi.

Til­kynnt var um þjófnað úr verslun í Garða­bæ snemma í gær­kvöldi en málið telst upp­lýst sam­kvæmt dag­bókinni. Einnig var til­kynnt um þjófnað úr verslun á Granda. Lög­regla veit hver gerandi er leitar hans.

Klukkan ellefu um kvöld var til­kynnt um hús­brot í mið­bæ Reykja­víkur. Einn karl­maður er í haldi lög­reglu vegna málsins. Þá var til­kynnt um inn­brot í fyrir­tæki í Hálsa­hverfinu í Reykja­vík. Bif­reið stolið og skemmdir unnar á hús­næðinu.

Lög­regla þurfti einnig að hafa af­skipti af nokkrum vegna um­ferðar­laga­brota. Átta voru stöðvuð fyrir grun um akstur undir á­hrifum fíkni­efna og/eða á­fengis. Tveir þeirra voru grunaðir um sölu og dreifingu fíkni­efna.