Aðalmeðferð í Rauðagerðismálinu svokallaða hefst á mánudag en fyrirtaka í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Frá mánudegi til fimmtudags eru skýrslutökur áætlaðar og er málflutningur á áætlun þann 23. september næstkomandi.
Við þingfestingu málsins síðastliðinn maí voru fjórir ákærðir en um er að ræða þrjá karlmenn og eina konu sem hafa verið ákærð fyrir manndráp í tengslum við morðið á Armando Beqirai, albönskum karlmanni sem var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði þann 13. febrúar síðastliðinn.
Rannsókn málsins hefur verið verulega umfangsmikil og um tíma höfðu fjórtán manns réttarstöðu sakbornings en við þingfestingu málsins síðastliðinn maí voru fjórir ákærðir.
Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, greinir frá því í samskiptum við Fréttablaðið að í heildina verða teknar skýrslur af um það bil 40 vitnum í næstu viku og eru gögn málsins um þrjú þúsund blaðsíður.
Einn hinna ákærðu, Angjelin Mark Sterkaj, játaði í mars að hafa skotið Armando en hin þrjú sem hafa verið ákærð neita sök. Sagði Angjelin við þingfestingu að hann hafi verið einn að verki en meðal hinna sem eru ákærð eru unnusta Angjelin, Claudia Sofia Coelho Carvahlo, auk Murat Selivrada og Sheptim Qerimi.
Sjö þjóðerni koma við sögu
Vitni og sakborningar í málinu eru af ýmsum þjóðernum og útvega þarf túlk fyrir þau öll en Kolbrún segir það ganga vel að útvega túlka fyrir málið.
Að því er kemur fram í frétt mbl.is um málið eru vitni í málinu af í hið minnsta sjö þjóðernum, það er frá Albaníu, Portúgal, Litháen, Rússlandi, Rúmeníu, Serbíu og Íslandi. Sakborningarnir tala ýmist rúmensku, portúgölsku eða albönsku. Tvö vitni eru stödd í Rúmeníu og þurfa að gefa skýrslu símleiðis í næstu viku.