„Dæmi er um að fjörutíu einstaklingar séu skráðir til lögheimilis í tvíbýlishúsi,“ segir í fundargerð skipulagsráðs Kópavogs sem kveðst við meðferð mála hafa rekist á tilvik þar sem margir einstaklingar séu skráðir á sama heimilisfang.

„Á þetta bæði við húsnæði sem er í fasteignaskrá skráð sem íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði,“ segir skipulagsráðið, sem kveðst að gefnu tilefni leggja áherslu á og hvetja hlutaðeigandi eftirlitsaðila til að vinna náið saman. Þeir eigi að leita „leiða til að auka öryggi og bæta aðbúnað fólks sem býr við slíkar aðstæður, sem eru oft á tíðum afar bágar,“ eins og segir í fundargerðinni þar sem lagt er til að umhverfissvið bæjarins hefji vinnu við skoðun á verkferlum vegna lögheimilisskráninga.